Kosning um formann VR stendur yfir 8. til 12. mars og eru Ragnar Þór og Helga Guðrún tvö í framboði. Þau ræddu ýmis mál tengd VR í Silfrinu í morgun, þar á meðal leiguíbúðir á vegum verkalýðshreyfingarinnar. Helga Guðrún segir að lífeyrissjóðirnir séu stór hluti af húsnæðiskerfinu. „Þetta snýst um það að lífeyrissjóðirnir séu í sínum verkefnum innan þeirra lána- og ávöxtunarstefnu sem þeir setja sér. Það er það sem þetta snýst um fyrst og fremst,“ sagði Helga Guðrún.
„Óhagnaðardrifin verkefni eiga mjög illa heima í fjármálafyrirtæki eins og lífeyrissjóði sem gengur út á það að ávaxta iðgjöld sjóðsfélaga. Þú hlýtur að þurfa að vera í hagnaðardrifnum verkefnum en hvort að þau eru á íbúðamarkaðnum eða einhvers staðar annars staðar, það er bara lífeyrissjóðsins að ákveða,“ segir hún.