Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ósammála um nálgun VR í húsnæðismálum

28.02.2021 - 13:36
Mynd: RÚV / RÚV
Óhagnaðardrifin verkefni eiga ekki heima innan lífeyrissjóða, að mati Helgu Guðrúnar Jónasdóttur, stjórnmála- og fjölmiðlafræðings, sem býður sig fram gegn Ragnari Þór Ingólfssyni, sitjandi formanni VR. Hann segir aftur á móti að hugmynd um leiguhúsnæði, sem verið er að þróa innan VR, hagnist bæði leigjendum og þeim sem fjármagni verkefnið.

Kosning um formann VR stendur yfir 8. til 12. mars og eru Ragnar Þór og Helga Guðrún tvö í framboði. Þau ræddu ýmis mál tengd VR í Silfrinu í morgun, þar á meðal leiguíbúðir á vegum verkalýðshreyfingarinnar. Helga Guðrún segir að lífeyrissjóðirnir séu stór hluti af húsnæðiskerfinu. „Þetta snýst um það að lífeyrissjóðirnir séu í sínum verkefnum innan þeirra lána- og ávöxtunarstefnu sem þeir setja sér. Það er það sem þetta snýst um fyrst og fremst,“ sagði Helga Guðrún. 

„Óhagnaðardrifin verkefni eiga mjög illa heima í fjármálafyrirtæki eins og lífeyrissjóði sem gengur út á það að ávaxta iðgjöld sjóðsfélaga. Þú hlýtur að þurfa að vera í hagnaðardrifnum verkefnum en hvort að þau eru á íbúðamarkaðnum eða einhvers staðar annars staðar, það er bara lífeyrissjóðsins að ákveða,“ segir hún. 

Mynd með færslu
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Mynd: RÚV

Fanney Birna Jónsdóttir, þáttastjórnandi, benti á að lífeyrissjóðirnir hafi verið gagnrýndir fyrir að hafa stundað of áhættusamar fjárfestingar. Helga Guðrún segir að þess vegna sé mikilvægt að lífeyrissjóðirnir séu með sínar stjórnir sem beri ábyrgð og að sú ábyrgð sé gagnsæ, þannig að hægt sé að taka á því innan viðkomandi lífeyrissjóðs.

Mynd með færslu
Helga Guðrún Jónasdóttir, frambjóðandi til formanns VR.  Mynd: RÚV

Ragnar Þór segir að teiknað hafi verið upp húsnæðismódel, leigufélag sem hafi verið kynnt starfsmönnum lífeyrissjóðanna. „Þetta er hugmynd sem að þjónar hagsmunum beggja aðila, það er að segja þeirra sem að koma inn með fjármuni og líka þeirra sem að leigja og þurfa að búa í þessu kerfi og sameina þannig aðgang fólks að öruggu og góðu húsnæði á hagkvæmu verði og síðan ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna,“ segir hann. 

Fyrirmyndin er sótt til þýskumælandi landa, að sögn Ragnars Þórs og hefur VR fengið ráðgjöf frá Ólafi Margeirssyni, doktor í hagfræði og fleirum. Hann segir að lífeyrissjóðirnir hafi tekið vel í hugmyndirnar en að ekki sé búið að fullmóta þær. Enn séu nokkur ljón í veginum en unnið sé að málinu í góðu samstarfi við ASÍ og BSRB.

Hér má horfa á þáttinn í heild sinni.