Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Önnur kona sakar Cuomo um kynferðislega áreitni

28.02.2021 - 04:18
Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York ríkis.
 Mynd: Peter Foley - EPA
Charlotte Bennett kom fram í bandarískum fjölmiðlum í gær og greindi frá kynferðislegri áreitni Andrew Cuomo, ríkisstjóra New York, í hennar garð. Bennett var aðstoðarkona Cuomos. Hún segir hann hafa áreitt sig í fyrravor.

Bennett er önnur konan á skömmum tíma sem sakar ríkisstjórann um kynferðislega áreitni. Að sögn Bennett á Cuomo að hafa sagt við hana að hann væri alveg opinn fyrir því að fara á stefnumót með konum á þrítugsaldri. Bennett er 25 ára, en Cuomo á sjötugsaldri. Þá segir hún Cuomo hafa spurt hana hvort aldur skipti hana máli. Bennett segir í viðtali við New York Times að Cuomo hafi aldrei reynd að snerta hana, en hún hafi skilið þetta þaning að hann vildi sofa hjá henni. Hún segist hafa orðið hrædd og liðið illa. Hún bætti því við að hún hafi rætt þetta við starfsmannastjóra Cuomos og lögfræðiráðgjafa. Hún var þá færð til í starfi. Hún var ánægð í nýja starfinu og ákvað að krefjast ekki rannsóknar. 

Önnur fyrrum aðstoðarkona Cuomos, Lindsey Boylan, greindi frá því á miðvikudag að ríkisstjórinn hafi brotið á henni þegar hún vann fyrir hann á árunum 2015 til 2018.

Hún segir Cuomo hafa kysst sig án samþykkis, lagt til að hún spilaði fatapóker við hann og viljandi snert á henni mjóbakið, hendur og fætur. Bennett skrifaði við færslu Boyle á Twitter á miðvikudag að þeir sem kærðu sig um að vita hvernig það væri að vinna fyrir Cuomo ættu að lesa sögu hennar.

Mörg spjót beinast að Cuomo

Cuomo hefur verið mikið í sviðsljósinu síðan New York ríki varð þungamiðjan í byrjun kórónuveirufaraldursins í Bandaríkjunum í fyrra. Nú er sótt á hann bæði vegna kynferðisbrota, og vegna þess að hann er sakaður um að hafa reynt að fela hversu margir létu lífið á hjúkrunarheimilum í kórónuveirufaraldrinum.

Hann sendi frá sér yfirlýsingu í gær vegna ásakana Bennett. Hann segist aldrei hafa gert hosur sínar grænar við hana, né hafi hann hegðað sér ósæmilega. Hann hafi viljað veita henni stuðning, þar sem hún hafði tjáð honum að hún hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi. Hann kallar eftir nákvæmri, óháðri rannsókn á ásökunum í hans garð.

Kjörtímabili Cuomos lýkur síðla næsta árs. Hann biður dómstól götunnar um að bíða með að dæma hann þar til niðurstöður utanaðkomandi rannsóknar eru komnar í ljós.