Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mótmælendur gengu berserksgang í Barselóna

28.02.2021 - 06:29
Mynd: EPA-EFE / EFE
Mótmælendur í Barselóna kveiktu í lögreglubíl og brutust inn í verslanir í gær. Hörð mótmæli hafa verið víða á Spáni, þá sérstaklega í Barselóna, síðan tónlistarmaðurinn Pablo Hasel var handtekinn af lögreglu 16. febrúar.

Hann afplánar nú níu mánaða dóm fyrir að hafa lofað hryðjuverkaárásir í textum sínum. Að auki var hann dæmdur fyrir að líkja fyrrverandi konungnum Jóhanni Karli I við mafíuforingja og sakað lögreglu um a drepa mótmælendur og innflytjendur.

Nokkur hundruð manns komu saman í Barselóna í gær til að sýna Hasel stuðning. Eftir því sem leið á daginn greip hópur mótmælenda til skemmdarverka. Brotist var inn í og stolið úr nokkrum bönkum, þar á meðal var eldur lagður að einum þeirra hefur AFP fréttastofan eftir lögreglunni í Katalóníu. Auk þess kveiktu þeir í ruslatunnum og einum lögreglubíl. Um tíu voru handteknir í gær. Alls hafa yfir 110 mótmælendur verið handteknir síðan Hasel var handtekinn fyrr í mánuðinum. Flestir mótmælendanna hafa verið handteknir í Barselóna og víðar í Katalóníu, heimahéraði Hasels.

Dómnum hefur verið mótmælt flesta daga eftir að Hasel var handtekinn. Undanfarna daga hefur fólk einnig látið í sér heyra vegna atvinnuleysis og hækkandi leiguverðs. Mál Hasels hefur jafnframt vakið mikla umræðu um málfrelsi á Spáni.