Kona í Vestmannaeyjum rekur heilsugæslu í Gambíu

Mynd: Þóra Hrönn Sigurjónsdóttir / RÚV/Landinn

Kona í Vestmannaeyjum rekur heilsugæslu í Gambíu

28.02.2021 - 15:08

Höfundar

Í janúar í fyrra tók Þóra Hrönn Sigurjónsdóttir við rekstri heilsugæslu í þorpinu Kubuneh í Gambíu og draumurinn er að byggja þar fæðingastofu. Reksturinn fjármagnar hún með sölu á notuðum fötum og hlutum frá Eyjamönnum.

„Að reka heilsugæslu fyrir mig er í rauninni bara að útvega peninga. Og auðvitað að vera í næstum því daglegum samskiptum við strák þarna úti sem heitir Ousman sem í rauninni rekur hana,“ segir Þóra. 

Hún brá á það ráð að opna umhverfisvæna verslun, Kubuneh, í Vestmannaeyjum þangað sem fólk kemur með notuð föt og hluti og seld eru í búðinni. Á hlið hússins er lúga þar sem fólk getur komið með heillegt dót og gefið eða bara kíkt inn. Og þar er nóg að sjá. Auk þess notaða hafa handverkskonur í eyjum gefið vörur til að selja og nú er til dæmis hægt að fá barnahúfur sem saumakennarinn í Barnaskólanum lagði til. 

„Hver einasta króna sem kemur hérna inn fer bara í þetta verkefni. Hér er enginn á launum og ekki neitt. Þannig að ef þú kaupir 66 gráður norður úlpu á tvö þúsund kall þá fer bara tvö þúsund kallinn í þetta.“

Þóra hefur svo með góðri hjálp, til dæmis íbúa á elliheimilinu, útbúið dömubindapoka ásamt fræðslubæklingi sem hún tekur með sér þegar hún fer út. 13-15 þúsund manns leita árlega til heilsugæslunnar í Kubuneh sem stóð til að loka þegar hún tók við henni.