Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Klæðning losnaði af verksmiðjuhúsi á Siglufirði

28.02.2021 - 10:20
Mynd með færslu
 Mynd: Ingvar Erlingsson
Um tíu björgunarsveitarmenn úr Strákum á Siglufirði unnu í gærkvöldi ásamt lögreglu við að festa upp klæðningu á gafli verksmiðjuhúss sem losnaði í miklum veðurham. Að sögn Ingvars Erlingssonar björgunarsveitarmanns var hávaðarok í bænum, með staðbundnum hvíðum og sviptivindum milli húsa.

„Klæðningin losnaði af öllum gaflinum og þurfti að festa hana,“ segir Ingvar í samtali við fréttastofu. Verkinu var lokið upp úr miðnætti en tilkynning barst skömmu fyrir átta í gærkvöldi. Ingvar kveðst hvorki hafa heyrt af frekara tjóni né slysum á fólki.

„Það gekk á með rokum í nótt en veðrið virðist vera að róast núna,“ segir Ingvar en hann segir að leiðindaveður geti orðið á Siglufirði í suðvestanátt þótt rólegt sé allt umhverfis bæinn. Þess vegna vilji bæjarbúar gjarna fá veðurathugunarstöð í bæinn.