Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Íbúi í Vogum viðbúinn þurfi að hverfa á brott í flýti

Mynd með færslu
 Mynd: Jakob Jónsson
Jakob Jónsson, hafnsögumaður sem búsettur er í Vogum á Vatnsleysuströnd, kveðst nokkuð rólegur þrátt fyrir stöðuga jarðskjálfta og umfjallanir um mögulegt eldgos á Reykjanesskaga. Fjölskyldan hefur þó búið sig undir að bregðast við fari allt á versta veg.

„Hér hefur allt leikið á reiðiskjálfi og hundurinn á heimilinu hefur verið alveg skelfingu lostinn,“ segir Jakob í samtali við fréttastofu.

Hann starfaði lengi sem stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, var stýrimaður á stórum farþegaskipum í Karíbahafi og skipstjóri á köfunarskipi. Jakob kveðst í störfum sínum fljótt hafa lært að mikilsvert sé að vera vel undirbúinn.

„Þess vegna erum við klár með „flóttatösku“ ef upp kæmi sú staða að við þyrftum að bruna af stað með skömmum, eða engum fyrirvara,“ segir Jakob, sem er kvæntur Shano Jónsson sem ættuð er frá Trinidad. Auk þeirra býr unglingssonur þeirra á heimilinu.

„Taskan inniheldur nauðsynjar sem erfitt er að vera án, á borð við lyf og annað það sem hverjum og einum er nauðsynlegt. Jakob segir að mögulega hlæi einhverjir að þessu en segist þess fullviss að þeim Vestmannaeyingum sem fæddir séu fyrir 1973 finnist hugmyndin ekki svo galin.

„Mér finnst alltaf best undirbúa mig fyrir það versta en vona það besta,“ segir Jakob.