Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hörmungardagar gera öllu því ömurlega hátt undir höfði

Mynd með færslu
 Mynd: Hafdís Sturlaugsdóttir

Hörmungardagar gera öllu því ömurlega hátt undir höfði

28.02.2021 - 12:37

Höfundar

Hörmungardagar standa nú yfir á Hólmavík. Þar á að gera öllu því sem er hörmulegt hátt undir höfði.

Hörmungardagar eru hátíð alls þess ömurlega, ómögulega, neikvæða og niðurdrepandi í heiminum á versta tíma ársins, í dimmum og köldum febrúar. Eða þannig er hátíðinni í það minnsta lýst. Esther Ösp Valdimarsdóttir, tómstundafulltrúi í Strandabyggð, er ein skipuleggjenda.

„Það vantar oft svona rými fyrir það sem er neikvætt og það sem er svona, tuð og nöldur og niðurrif og ýmislegt svona. Líka til að fjalla bara um hluti sem við ættum að gefa betri gaum.“

Á dagskránni eru meðal annars draugagöngur og sjálfsvorkunnarnámskeið, hægt verður að hlýða á hörmungarkvein og snæða hungursneið. Margt af þessu er í streymi. 

Esther segir minni pressu að skipuleggja Hörmungardaga en aðrar hátíðir, eins og Hamingjudaga sem eru haldnir að sumri.

„Af því það má alveg vera leiðinlegt, og það má allt fara í vaskinn því það yrði bara partur af prógramminu.“

Hörmungardagar klárast á morgun, en Esther hvetur alla til að taka þátt, og gefa því hörmulega pláss þessa helgina. Engin sé hamingjan án þess hörmulega.

Tengdar fréttir

Umhverfismál

Ver næstu fjórum árum í að hreinsa fjörur á Ströndum

Strandabyggð

Opna nýja byggingavöruverslun á Hólmavík