Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Halla Bergþóra neitar að tjá sig um símtöl til ráðherra

Mynd: RUV / RUV
Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu sagðist ekki geta tjáð sig í Silfrinu í morgun um símtal dómsmálaráðherra til hennar á aðfangadag vegna máls fjármálaráðherra tengdu heimsókn hans í Ásmundasal.

Ástæðan væri sú að málið væri komið til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Fanney Birna Jónsdóttir, stjórnandi þáttarins tók þetta sérstaklega fram í upphafi samtals þeirra. 

Jóhann Bjarni Kolbeinsson fréttamaður reyndi að ná tali af Höllu Bergþóru þegar hún var á leið í útsendingu á þættinum, eins og sjá má í myndskeiðinu hér að neðan. Hann spurði lögreglustjóra hvort hún væri tilbúin að ræða samskipti sín við dómsmálaráðherra. 

„Ég er ekki hingað komin til þess,“ var svar hennar og þá spurði Jóhann Bjarni hvort hún væri tilbúin að tjá sig síðar. Svar hennar var að hún myndi sjá til og í sömu andrá lokaði hún dyrunum að förðunarherberginu.

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RUV

Í skriflegu svari til fréttastofu í síðustu viku staðfesti Halla Bergþóra að hún hefði rætt málið við Áslaugu Örnu.

„Við Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra ræddum tvisvar saman í gegnum síma um málið sem kom upp í Ásmundarsal í desember. Bæði samtölin sneru að upplýsingagjöf lögregluembættisins og hvernig að henni var staðið,“ sagði Halla Bergþóra í svari sínu.

Hún hefur hins vegar ekki svarað fjölmörgum spurningum sem fréttastofa hefur sent henni um málið, heldur aðeins vísað í sitt fyrra svar.