Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hákon Daði óstöðvandi í öruggum sigri á ÍR

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Hákon Daði óstöðvandi í öruggum sigri á ÍR

28.02.2021 - 14:56
ÍBV vann þægilegan níu marka sigur á ÍR í Olís deild karla í dag. ÍBV var með yfirhöndina nær allan leikinn og sigur þeirra í raun aldrei í hættu.

ÍBV og ÍR mættust í fyrsta leik dagsins í Olís deild karla í handbolta. Liðin áttu það sameiginlegt að hafa bæði tapa gegn Hafnfirðingum í síðustu umferð. ÍBV gegn FH og ÍR gegn Haukum. 

Talsvert jafnræði var með liðunum í upphafi en eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn náðu heimamenn í ÍBV að slíta gestina aðeins fra sér. ÍBV náði mest fjögurra marka forystu en í hálfleik var staðan 16-13 fyrir ÍBV.

Í seinni hálfleik hélt ÍBV forystunni allan tímann og sigur liðsins var aldrei í hættu. Á lokamínútum leiksins virtist ÍBV setja í næsta gír og tryggðu sér þá öruggan níu marka sigur, 32-23.

Hákon Daði Styrmisson fór algjörlega á kostum í liði ÍBV og skoraði hvorki meira né minna en 15 mörk, eða rétt tæplega helming marka liðsins. Þá var Petar Jokanovic öflugur í marki liðsins en hann varði 17 skot. Hjá ÍR var Gunnar Valdimar Johnsen markahæstur með 6 mörk.