Hafði peningaáhyggjur í fyrsta sinn í 30 ár

Mynd: RÚV / RÚV

Hafði peningaáhyggjur í fyrsta sinn í 30 ár

28.02.2021 - 12:00

Höfundar

„Ég hugsaði bara: Guð minn góður, það er allt í rugli,“ segir tónlistarmaðurinn Jón Ólafsson sem líkt og flestir listamenn varð fyrir tekjutapi í faraldrinum. Hann brá á það ráð að bjóða tónlistarmönnum aðstoð og stúdíópláss hjá sér og hélt einnig lagasmíðanámskeið fyrir upprennandi tónlistarfólk og tókst þannig að drýgja tekjurnar. Jón er að verða pabbi í sjötta sinn og segir föðurhlutverkið það besta í heimi.

Jón Ólafsson útvarps- og tónlistarmaður átti 58 ára afmæli á fimmtudag og hann er nú að verða faðir í sjötta sinn þar sem Hildur Vala Einarsdóttir konan hans er barnshafandi. Hann segir fólk hafa viðrað þær áhyggjur við hann að hann sé orðinn of gamall til að eignast börn eða hann hafi ekki nægan tíma til að sinna barninu og öllu öðru sem hann gerir, en hann segir það af og frá. „Ég segi: Ég spila ekki golf svo ég hef nógan tíma,“ segir Jón. Hann kíkti í Mannlega þáttinn á Rás 1 og sagði frá föðurhlutverkinu, uppvextinum og tónlistinni sem hann heyrir víða.

Best í heimi að eignast börn

„Þetta er best í heimi,“ segir hann spenntur fyrir afkvæminu. „Og eftir því sem maður verður eldri verður maður rólegri og rólegri og maður veit hvað tíminn líður hratt svo maður þarf að njóta augnablikanna. Allt þetta safnast saman í að maður verður syngjandi sæll og glaður.“ Jón er ekki bara sex barna faðir því hann á líka tvö barnabörn, það yngsta er aðeins fjögurra vikna. „Það er allt vaðandi í börnum í kringum mig. Ég sá þetta ekki fyrir mér sem ungur maður.“

Best að krakkar séu með sínum jafnöldrum

Jón lærði að lesa áður en hann byrjaði í grunnskóla og var færður upp um bekk í sex ára bekk. Eftir á að hyggja er hann ekki viss um að það hafi hentað sér að vera í bekk með krökkum sem voru einu ári eldri og voru til dæmis ári á undan honum að komast inn á skemmtistaði. Hann æfði fótbolta hins vegar með jafnöldrum sínum. „Svo fór maður að pæla hvort ég ætti að fermast með strákunum sem ég er með í fótbolta eða skólafélögunum,“ segir hann. „Ég átti alltaf tvo vinahópa, jafnaldra mína og þá sem voru sem voru ári eldri. Ég held það sé best að fólk sé bara með sínum jafnöldrum og kennararnir finni bara verkefni við hæfi.“

Í háum hælum með hár niður á herðar

Hann minnist þó góðra stunda í fermingunni og sérstaklega er honum minnisstæð múnderingin sem hann skartaði. „Þá var glamrokk-tímabilið og þá var ég á háum hælum eins og allir. Maður fór í skóbúð og leitaði að hæstu hælunum, þrettán sentimetrar, og svo skrölti maður inn á fermingarkyrtlinum þar sem séra Árelíus beið, með hár niður á herðar og risastóra flauelsslaufu yfir hálfu andlitinu.“

Klippti hárið því konur á böllum vildu snerta krullurnar

Hann hefur verið hárprúður og var lengi með sítt og hrokkið hár. En hann varð þreyttur á krullunum árið 1992 og athyglinni sem þær vöktu og losaði sig því við þær. „Þegar ég var að spila á böllum voru konur að koma við hárið á mér og spyrja hvort ég væri með permanent,“ segir Jón sem á þessum tíma tróð reglulega upp með hljómsveit sinni Nýdönsk. „Það var eilífðar umræða um þetta fjárans hár.“

Hann klippti það því stutt og litaði svart. „Svo fannst mér það svo gott að ég hef haft það stutt síðan,“ segir Jón sem stefnir ekki á að leyfa því að vaxa aftur. „Ef ég safna verð ég eins og gömul kona.“

„Guð minn góður, það er allt í rugli“

Síðasta ár var lærdómsríkt og líkt og flestir listamenn varð hann fyrir tekjumissi í faraldrinum. Hann varði árinu að miklu leyti heima hjá sér og í skúrnum sem hann innréttaði sem stúdíó í sumar. „Ég dreif í því þó ég hefði ekki endilega efni á því því tekjufallið var svolítið. En einhvern veginn hefur þetta bjargast vegna úrræða ríkisstjórnarinnar og liðlegheita skattsins,“ segir hann. Hann viðurkennir þó að hafa verið uggandi á tímabili yfir tekjumissinum. „Það kom ein nótt þar sem ég hafði í fyrsta sinn peningaáhyggjur síðan ég var bara 25 ára. Ég hugsaði bara guð minn góður, það er allt í rugli.“ En hann þurfti ekki að hafa áhyggjur lengi, verkefnin streymdu fljótlega til hans, jafnvel úr óvæntustu áttum. „Fólk var að biðja mig um að taka upp fyrir sig plötu, fólk sem ég þekkti ekkert.“

Textinn mikilvægastur

Jón ákvað líka að drýgja tekjurnar með því að standa fyrir fjarnámskeiði í lagasmíðum. Hann hefur nú þegar aðstoðað á fimmta tug manns við lagasmíðar og skemmtir sér konunglega. Fólkið sem sækir námskeiðið er með ólíkan bakgrunn og er á öllum aldri. „Sextán ára unglingur í MH, fimmtugar konur með harmonikku, alls konar fólk,“ segir hann.

Til að gera gott lag þarf þrennt að vinna saman; laglínan, söngröddin og textinn. Jón segir þó að fyrir sér sé textinn mikilvægastur. „Þú getur gert eitthvað rosalega skemmtilegt lag en ef textinn er bara glataður lifir þetta lag kannski eitt sumar. Við munum eftir því þegar við sungum hopp og hí og nananna og trallalla en þetta lag er ekki í söngbókum og það er ekki verið að biðja um það sem óskalag,“ segir Jón. „En fólk er að biðja um Magnús Eiríksson og Valgeir Guðjónsson.“

Heyrir tónlist í fuglakvaki og flugvélanið

En fyrir Jóni er tónlistin allt umlykjandi og hann heyrir hana á óvæntustu stöðum. „Ég get farið út að labba og upplifað flugvélanið og fuglakvak og fengið fró út úr því, bara einhverjum hljóðum,“ segir hann. En til þess að hreyfa almennilega við honum þarf tónlist að vera einlæg. „Ég get heyrt tvö hundruð söngvara syngja allar slaufur heimsins og það kemur ekki við mig. Svo kemur stelpa og syngur fimm nótur og ég bara sé inn í sálina á henni og þá er ég glaður. Að vera heiðarlegur og einlægur í því sem ég geri skiptir öllu máli.“

Rætt var við Jón Ólafsson í Mannlega þættinum á Rás 1. Hér má hlýða á þáttinn í heild sinni.