Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Hafa greitt rúmlega tvo milljarða með hjúkrunarheimilum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þrjú sveitarfélög hafa greitt samanlagt yfir tvo milljarða króna með hjúkrunarheimilum á undanförnum árum. Þau hafa öll ákveðið að endurnýja ekki samninga við Sjúkratryggingar um áframhaldandi rekstur þeirra. Akureyrarbær hefur greitt hátt í tvo milljarða króna með rekstri hjúkrunarheimila í bænum frá 2012. Bæjarfulltrúi í bænum segir að ekki sé grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri heimilanna.

Fjárhagsstaða nokkurra hjúkrunarheimila í landinu hefur verið slæm að undanförnu, og einhver þeirra hafa þurft að taka yfirdrátt.

Fjögur sveitarfélög hafa tilkynnt Sjúkratryggingum Íslands að þau framlengi ekki samninga um rekstur hjúkrunarheimila þegar núgildandi samningar renna út. Samningar við þau renna út á fyrri hluta þessa árs og hefur rekstur þeirra verið auglýstur. Fréttastofa kallaði eftir upplýsingum frá nokkrum þessara sveitarfélaga. 

Einlægur ásetningur

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir að uppsafnað rekstrartap sveitarfélgasins, vegna rekstrar hjúkrunarheimilisins Hraunbúða, nemi tæpum 500 milljónum króna frá árinu 2010. Að meðaltali hafi bærinn greitt tæpar 45 milljónir með heimilinu á ári síðastliðin 11 ár.

Þær upplýsingar fengust frá Fjarðarbyggð að sveitarfélagið hefði greitt 130 milljónir með hjúkrunarheimilum síðastliðin þrjú ár, þar af um 60 milljónir í fyrra.

Og á bæjarstjórnarfundi á Akureyri í síðustu viku var farið yfir stöðu öldrunarheimila bæjarins. Á fundinum kom fram að bærinn hefði greitt 1.700 milljónir króna með rekstri þeirra frá 2012 til 2020. Þá kom fram að það vanti hátt í 400 milljónir í reksturinn á þessu ári. Guðmundur Baldvin Guðmundsson, bæjarfulltrúi á Akureyri, fór yfir málið á fundinum.

„En hins vegar er ljóst að það er ekki grundvöllur fyrir því að reka hjúkrunarheimili með þessum fjárframlögum sem eru í daggjöldum í dag. Hins vegar er beðið eftir skýrslu sem kemur frá Gylfa Magnússyni og hóp sem var myndaður í kringum rekstur öldrunarheimila og væntingar eru um að meira fjármagn fáist. En hins vegar er það einlægur ásetningur okkar í bæjarstjórn að skila rekstrinum. Það er bara þannig að við getum ekki og eigum ekki að vera að greiða niður þjónustu fyrir ríkið,“ sagði Guðmundur meðal annars á fundinum. 

Á fundi velferðarnefndar Alþingis í fyrramálið verður sérstaklega farið yfir málefni hjúkrunarheimila á vegum sveitarfélaga.