Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Frestaði bæði brúðkaupi og barneignum vegna COVID-19

Mynd: Ágúst Ólafsson / RÚV
Kona sem var á meðal þeirra fyrstu til að fá COVID-19 hér á landi þurfti að fresta bæði barneignum og brúðkaupi vegna veikinda sinna. Hún varð töluvert mikið veik og er enn að jafna sig. Eitt ár er í dag frá því að fyrsta smitið greindist hér á landi.

 

Íslendingur er í einangrun á Landspítalanum með COVID-19 veirusýkingu, sá fyrsti sem greinist hér á landi. Hann kom til Íslands frá Ítalíu fyrir sex dögum. Lögregla og heilbrigðisstarfsfólk vinnur nú að því að kortleggja ferðir hans.

Á þessum orðum hófst fréttatími RÚV fyrir réttu ári síðan, 28. febrúar 2020. Og það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan. Alls hafa 6.048 smit til viðbótar verið staðfest hér á landi. Af þeim sem hafa smitast hafa 29 látist. 45.916 manns hafa lokið sóttkví, 277.150 sýni hafa verið tekin innanlands og samtals 222.550 landamærasýni. Þá hefur verið lokið við að bólusetja 12.564.

Erfiðasta veiran

Á meðal þeirra fyrstu til þess að greinast með COVID-19 hér á landi var Elísabet Ögn Jóhannsdóttir, 32 ára Akureyringur. Hún var sú fyrsta til þess að greinast á Norðurlandi, en hún greindist 15. mars. Hún varð hins vegar veik mun fyrr, eða 1. mars.

„Og mig grunar að ég hafi smitast cirka viku fyrr, þannig að það hefur verið á Akureyri. Þannig að þetta hefur verið komið hingað miklu fyrr en við héldum.“

Mynd: Ágúst Ólafsson / RÚV
Hér má sjá lengri útgáfu af viðtalinu við Elísabetu Ögn Jóhannsdóttur.

Elísabet veit ekki enn þann dag í dag hvernig hún smitaðist, enda segir hún að smitið hafi komið sér mjög á óvart. Hún varð töluvert mikið veik, og veikindin stóðu lengi.

„Ég fékk vott af lungnabólgu og ég var með hita í marga mánuði. Ég held að ég hafi ekki verið lífshættulega veik en þetta var einhver erfiðasta veira sem hefur herjað á mig.“

Og bataferlið hefur tekið sinn tíma.

„Já ég var miklu lengur að jafna mig heldur en ég hafði nokkurn tímann gert mér grein fyrir. Og ég er í rauninni ennþá að jafna mig.“

„Við nenntum ekki að bíða lengur“

 Veikindin settu stórt strik í reikninginn hjá Elísabetu og manninum hennar, Kára Einarssyni.

„Við hættum við brúðkaupið sem var búið að plana heillengi. Það átti að vera 20. júní. Við blésum það af. Og eftir það vorum við svolítið óviss með barneignir. Það var búið að vera á planinu hjá okkur. Við vorum svolítið að bíða fram að brúðkaupi en síðan var maður svolítið stressaður út af COVID, hvernig ástandið á manni væri og svona,“ segir Elísabet.

„En við giftum okkur svo í ágúst hjá sýslumanni, við nenntum ekki að bíða lengur. En veislan bíður ennþá.“

Og hvað barneignir varðar frestuðust þær aðeins um nokkra mánuði, því Elísabet er nú gengin rúmlega hálfa leið með þeirra annað barn.

„Við biðum aðeins en svo gekk þetta rosalega vel hjá okkur þannig að í rauninni er þetta ekkert rosalega mikil seinkun ef maður hugsar um að það er ekkert sjálfgefið að geta barn hvenær sem manni dettur í hug. Þannig að ég myndi segja að þetta hafi bara gengið nokkuð vel. En augljóslega voru plönin okkar stoppuð á ýmsan hátt. Við fórum aðeins seinna út í það en við höfðum ætlað okkur,“ segir Elísabet.

„Þannig að lífið er í rauninni búið að setja mann svolítið á annað spor. En í rauninni höfum við verið rosalega heppin því að hlutirnir haga gengið rosalega vel hjá okkur þrátt fyrir að hafa þurft að breyta um stefnu í ýmsu.“