Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Engin merki um að jarðskjálftahrinan sé í rénun

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Páll Svavarsson
Elísabet Pálmadóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni segir ekki merki um að jarðskjálftahrinan á Reykjanesi sé í rénun, að líklegt sé að hún haldi áfram með svipuðum hætti og síðustu daga.

Jarðskjálfti sem mældist 4 stig að stærð fannst í byggð skömmu fyrir klukkan átta í morgun. Á annan tug skjálfta yfir þremur hefur mælst í nótt, sá langstærsti var 4,7 að stærð um tuttugu mínútum eftir miðnætti.

„Virknin kemur í bylgjum, það róast á milli og svo kemur meiri kraftur í hana. Við getum alveg búist við að þetta haldi áfram næstu daga. Það er ekki að draga úr en það er ekki heldur að aukast þannig að við fylgjumst bara vel með áfram.“

Jafnframt hvetur Elísabet fólk til að kynna sér viðbrögð við jarðskjálftum á vef Almannavarna. Það rói fólk að vera vel undirbúið, gott sé fylgjast með fréttum og upplýsingum á vefsíðu Veðurstofunnar. 

Elísabet ítrekar að ekki séu nein merki um kvikusöfnun eða gosóróa á svæðinu en alls hafa orðið yfir 10 þúsund skjálftar frá því hrinan hófst.