Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki hálka á flugbraut Suðurskautslandsins

28.02.2021 - 19:40
Mynd: Aðsend mynd: August Hakansson / RÚV
Áhöfn flugvélar Icelandair sem flaug til Suðurskautslandsins í vikunni sneri aftur til Íslands í dag. Farþegarnir sem voru sóttir hafa lítið fundið fyrir áhrifum faraldursins.

Förin tók fimm daga. Flogið var beint frá Keflavík til Höfðaborgar. Þar var fyllt á eldsneyti bæði flugvélarinnar og áhafnarinnar áður en flogið var til Troll á Suðurskautslandinu. Tilgangur ferðarinnar var að sækja norska vísindamenn sem hafa verið þar við rannsóknir á vegum Norsku heimskautastofnunarinnar. Flugstjórinn segir að aðkoman hafi verið einföld.

„Hvítt, ljómandi veður þegar við lentum þarna á jöklinum, hægviðri og 13 stiga frost, ljómandi gott veður,“ segir August Hakansson leiðangursstjóri og flugstjóri. 

Stoppið var stutt á Suðurskautslandinu áður en haldið var sömu leið til baka, með viðkomu í Ósló til að skila farþegunum til síns heima.
Vísindamennirnir hafa verið á Suðurskautinu í allt að 16 mánuði. Þeir hafa því lítið fundið fyrir kórónuveiruáhrifum.

„Nei, þeir hafa lítið af faraldrinum vitað nema af fjölmiðlum sem þeir hafa séð. Það var ákveðið áhyggjuefni hvort að við kæmum smituð til þeirra né að þeir yrðu útsettir fyrir smiti á leiðinni heim til Noregs. Þeir voru komnir með vilyrði fyrir því að sleppa við sóttkví við komuna, út af því hversu mikilli einangrun þeir væru búnir að vera í,“ segir August.

August segir að lending og flugtak hafi gengið mjög vel og flugbrautin ekki verið hál þó að hún sé á jökli.

„Nei, það var ekki hálka á þessarri braut. Ég hef lent á miklu hálli brautum um alla Evrópu,“ segir August.