Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Dusta rykið af aðferðum til að nýta hamp

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV/Landinn
Í Hallormsstaðaskóla hafa nemendur sótt vinnustofu þar sem iðnaðarhampur er lykilhráefnið. „Þau eru búin að vera rannsaka nýtingarmöguleika hampsins, í ýmsum útgáfum,“ segir Bryndís Fiona Ford, skólameistari Hallormsstaðaskóla. „Það er mikil vitundarvakning um hvað við getum ræktað hér á Íslandi og hvernig við ætlum að nýta það. Og rauði þráðurinn í náminu hjá okkur er sjálfbærnin.“

Leita að góðu yrki

Og það var sjálfbærnin sem leiddi Pálma Einarsson, leiðbeinanda á námskeiðinu, og Oddnýju Önnu Björnsdóttur út í hamprækt á jörð sinni Gautavík í Berufirði. Í fyrrasumar fóru þau af stað annað árið með ræktun á iðnaðarhampi og prófa nú mismunandi yrki. „Við erum helst að leita að einhverju eins og þessari týpu hér sem er með góða stilka, þá fáum við meira af trefjum og meira af tréni sem er kjötið innan í en líka góð blóm sem er hægt að nota í te og eitthvað svoleiðis,“ segir Pálmi.  

Hefur verið bannað að rækta iðnaðarhamp

Iðnaðarhampur er áþekkur ólöglegum kannabisplöntum en inniheldur innan við 0,2 prósent af virka efninu THC og er því ekki notaður sem vímugjafi. Plantan er þó af kannabisætt og hefur því verið sett undir sama hatt og vímuvaldandi kannabisplöntur - og var bönnuð þar til síðasta vor. Þá er í iðnaðarhampi virka efnið CBD sem hefur verið skilgreint sem lyf á Íslandi og er hampræktendum óheimilt að einangra það og selja, - en margir hafa mikla trú á því sem fæðubótarefni. 
 
Saga hampræktunar í heiminum nær árþúsundir aftur í tímann. „Það er kínversk goðsögn sem segir að guðirnir hafi gefið mannkyninu eina plöntu að gjöf sem átti að fullnægja öllum þörfum þess og það var hampur. Hampur hefur verið með mannkyninu eins langt aftur og við náum að sjá og skoða og var lykilhráefni í því sem við vorum að framleiða. Hvort sem það var klæðnaður, segl, reipi, matvæli, skepnufóður, pappír, lyf, fæðubótarefni, - hampurinn var allstaðar,“ segir Oddný Anna. 

Hampur getur leyst plastið af hólmi

Iðnaðarhampur hefur verið bannaður víðar en á Íslandi og það hefur greitt götu annarra efna eins og plasts. „Þegar við fórum að lenda í vandræðum með allt plastið og önnur efni sem er að menga jörðina og þá fór fólk að horfa aftur til baka og spyrja hvernig við gerðum þetta áður?,“ segir Oddný Anna. „Ég sé alveg fyrir mér að það sé hægt að byggja upp fjölbreyttan iðnað úr iðnaðarhampi - allt frá því að gera batterý til þess að gera yfirbyggingar á bíla og báta það er svo ofsalega fjölbreytt,“ segir Pálmi.

Þarf að finna út hvað á að gera við allan hampinn

Nemendur í Hallormsstaðaskóla hafa notað hampinn í matreiðslu, textílvinnslu og fleira. „Þessi kunnátta eins og að vinna með hampinn er eitthvað sem þarf endilega að dusta rykið af og endurvekja. Nú eru 200-300 manns að rækta hamp á Íslandi og það er hluti af sjálfbærninni að finna út hvað við ætlum að gera við allan þennan hamp,“ segir Bryndís Fiona Ford, skólameistari. 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður