Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Yrðu ekki miklar hamfarir þótt skjálfti yrði 6,5

Mynd: Skjáskot / RÚV
Jarðhræringarnar sem hafa verið á Reykjanesskaga síðustu daga eru framhald af atburðarásinni sem var í gangi á síðasta ári, segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur að loknum fundi vísindaráðs almannavarna í dag. Hann segir að jafnvel þótt jarðskjálfti allt að 6,5 að stærð myndi ríða yfir væru það ekki miklar náttúruhamfarir, íslensk hús séu vel undir slíkt búin. Litlar líkur eru á eldgosi og núverandi skjálftasvæði væri einhver alheppilegasti staður fyrir gos nálægt byggð.

Fulltrúar Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Umhverfisstofnunar, Isavia-ANS, HS-Orku og ÍSOR sátu fund vísindaráðs síðdegis. Þar kom fram að mælingar gefa engar vísbendingar um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið. Skjálftavirknin er mest í kringum Fagradalsfjall og er öflugasta hrinan frá árinu 1933. Helst er gert ráð fyrir tveimur sviðsmyndum, annars vegar að það dragi úr skjálftavirkni næstu daga eða vikur eða að hrinan færist í aukana með skjálftum allt að 5,5 til 6,5 að stærð. Langflest hús á Íslandi myndu standa slíkt af sér en innanstokksmunir gætu farið af stað sé ekki rétt frá þeim gengið.

Framhald af atburðum síðasta árs

„Í rauninni kemur það bara skýrt fram að þessi atburðarás sem er í gangi er framhald af þeirri atburðarás sem er búin að vera í gangi eiginlega frá áramótunum 2019-2020,“ segir Páll að fundinum loknum. Þar fóru fræðimenn, sérfræðingar og starfsmenn almannavarna yfir jarðhræringarnar á Reykjanesskaga síðustu daga. Stóri skjálftinn á miðvikudag var gikkskjálfti sem hleypti fleiri ótengdum skjálftum af stað.

Þrátt fyrir að fólk hafi fyrst orðið vart stóru skjálftanna á miðvikudagsmorgunn byrjaði atburðarásin daginn áður, segir Páll.  Þá byrjaði skjálftavirkni að aukast með hverri hrinunni á fætur annarri. „Aðalhrinan byrjar 24. en hún á sér svolítinn aðdraganda, það voru litlar smáhrinur á tveimur stöðum 23. Síðan dynur þetta hreinlega yfir þann 24.“

Gikkskjálfti leysti ótengda skjálfta úr læðingi

„Þá gerist þetta undarlega sem við höfum séð nokkrum sinnum, bæði í 2000-skjálftunum á Suðurlandi og í október á þessu sama svæði, að það verða svokallaðir gikkskjálftar.“ Stóri skjálftinn hleypir þá af stað spennu á flekaskilunum og í kjölfarið koma skjálftar sem eru í raun og veru ótengdir. „Þeir eru ekki eftirskjálftar í venjulegum skilningi heldur virkar stóri skjálftinn eins og gikkur. Hann hleypur af byssu sem var búið að hlaða.“ Að auki koma eftirskjálftar.

Páll segir að þetta hafi gerst á miðvikudag og fimmtudag en síðan dregið hægt úr. „Á föstudaginn byrjar önnur svona hviða,“ segir Páll. „Það dynur yfir skjálftavirkni með skjálfta nokkuð myndarlegum og eftirskjálftar eftir hann. Síðan tekur þetta sig enn aftur upp. Þetta kemur svona í hviðum. Þessi virkni stendur enn. Það er svolítið merkilegt að hér eru ekki gikkskjálftar. Þessi skjálfti hleypir ekki af stað öðrum ótengdum skjálftum. Það er búið að hleypa af. Þetta er nákvæmlega það sem gerðist á Suðurlandi í júní 2000. 17. júní kom stór skjálfti og hann hleypti af stað gikkskjálftum hátt í hundrað kílómetra langt sem náði alveg út á Reykjanes. Fjórum dögum seinna kom annar skjálfti á Suðurlandi. Hann var einn í heiminum og hleypti ekki af stað öðrum skjálfta.

Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofan
Skjálftar dagsins yfir þremur.

Skjálftavirknin enn öll vestan Kleifarvatns

Skjálftavirknin undanfarið hefur öll verið vestan við Kleifarvatn. Skjálftavirknin hefur ekki dreift sér lengra og þar hleðst upp spenna sem hefur ekki verið losuð lengi. „Þarna er pláss til að búa til heldur stærri skjálfti. Það þarf þó að koma skýrt fram að við erum ekki að tala um neina risaskjálfta. Við erum að tala um skjálfta sem Reykvíkingar þekkja frá fyrir tíð,“ segir Páll. Skjálftar upp á 6 og 6,2 urðu 1968 og 1933 á þessum slóðum og ollu einhverju tjóni. Komi stór skjálfti þar verður

Myndi ekki valda miklu tjóni

Skjálfti upp á 6,5 hefur 30-falt meiri orku en skjálfti upp á 5,5, segir Páll. Skjálfti upp á rúma 6 myndi ekki valda stórtjóni. Hann sagði reynsluna frá 1968 hafa sýnt hve vel íslensk hús stæðust jarðskjálfta. Þau hefðu í raun staðist skjálftann betur en búist var við. „Við þurfum held ég ekki að hafa áhyggjur af því að það verði eitthvert húshrun í þessum skjálftum sem þýðir að í raun og er húsið heima hjá manni öruggasti staðurinn til að vera á ef jarðskjálfti ríður yfir.“

Meinlaus gos á heppilegasta stað nærri byggð

Reiknaðar hafa líkur á eldgosum og ef af þeim væri hvert hraun gæti runnið. Páll segir að langmest eldvirknin á Reykjanesskaganum sé fólgin í litlum hraungosum. „Þetta eru meinlausustu eldgos í veröldinni. Við erum ekki þar að tala um neinar óskaplegar hamfarir.“

„Segjum að það gysi á þessum stað þar sem skjálftarnir eru núna. Þetta er einhver alheppilegast staður fyrir gos svona nálægt byggð. Þarna er nánast engin leið til að gera neinn óskunda. Það þyrfti að gjósa mikið og það er ekkert sem bendir til þess að það sé mikil kvika neins staðar á ferðinni,“ segir Páll. Hann segir að kvikuinnskotin í fyrra hefðu verið lítil. Ef þarna myndi gjósa yrði það líkt og í litlu Kröflugosunum sem allir séu búnir að gleyma.