Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þjóðverjar vilja síður bóluefni AstraZeneca

27.02.2021 - 20:56
epa08968294 (FILE) - The AstraZeneca Covid-19 vaccine in a refrigerator at Robertson House in Stevenage, Hertfordshire, Britain, 11 January 2021 (reissued 27 January 2021). AstraZeneca has rejected EU's criticism of its vaccine rollout process, after the company had announced delays in delivering the agreed doses to the bloc.  EPA-EFE/JOE GIDDENS / POOL
 Mynd: EPA-EFE - PA
Þjóðverjar virðast vera hikandi við að þiggja bólusetningu með bóluefni AstraZeneca við COVID-19. Á meðan mikil eftirspurn er eftir bóluefni þá er enn mikið til í geymslum af bóluefninu í Þýskalandi. Einnig hefur borið á því hér á landi að fólk vilji síður bóluefni AstraZeneca en önnur. Sérfræðingar segja enga ástæðu til að vantreysta bóluefninu.

Haft var eftir Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni í frétt fréttastofu á dögunum að ekki væri mikill munur á bóluefnunum sem eru í boði hér á landi því engin ástæða til því að neita einu bóluefni umfram önnur. 

Þýsk nefnd mælti ekki með bóluefninu fyrir 65 ára og eldri

Samkvæmt Politico eru helstu ástæður þess að Þjóðverjar hafni margir hverjir bóluefninu nokkrar. Í janúar hafi nefnd þýska ríkisins um bólusetningar mælt með því að aðeins skyldi nota bóluefnið fyrir fólk sem er yngra en 65 ára, þar sem efnið hafi ekki verið prófað nógu vel á þeim sem eru eldri. Þá höfðu einnig borist fréttir af því að bóluefnið væri örlitið minna verndandi  gegn veirunni en bóluefni BioNTech/Pfizer og Moderna, sem einnig eru gefin í Þýskalandi.

Sögðu aldrei að bóluefnið væri óöruggt

 

Thomas Mertens, sem fer fyrir bólusetningarnefnd þýska ríkisins, sagði í samtali við BBC að mat nefndarinnar gæti verið ástæða þess að fólk hiki við að þiggja bólusetninguna. Hann leggur þó áherslu á að nefndin hafi aldrei haldið því fram að bóluefnið væri á einhvern hátt óöruggt. Nú eru 1,4 milljónir skammta af bóluefninu þar í landi en aðeins 240.000 hafa verið notaðir. Hann segir unnið að því hörðum höndum að sannfæra fólk um að þiggja bóluefnið og byggja upp traust þess á því.

Segir enga ástæðu til að efast um AstraZeneca

Rætt var um bólusetningar hér á landi í útvarpsþættinum Vikulokunum á Rás 1 í morgun. Þar sagði Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, að þetta sé dæmi um sögur sem fari af stað og erfitt sé að stöðva. „Ég hef það frá sóttvarnalækni og fleirum, að það sé engin ástæða til að efast um gagn eða gildi neins af þessum bóluefnum og það er í rauninni allt í lagi að gefa AstraZeneca til eldri borgara, það er bara ekki búið að rannsaka það nógu mikið en öll þessi bóluefni hafa sýnt sig að vera bara mjög góð og virk, þannig að það er ekki ástæða til að vera eitthvað að hafa skoðun á því hvað maður fær,“ sagði Sigríður Dóra. „Heldur bara að þakka fyrir að bólusetninguna og að geta haldið áfram með lífið.“