Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sprungur á Suðurstrandavegi vegna skjálftanna

27.02.2021 - 11:42
Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin
Sprungur hafa myndast á Suðurstrandavegi skammt vestan við Vigdísarvallaveg vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga. Eftirlitsmenn Vegagerðarinnar urðu varir við sprungur í veginum snemma í morgun.

Á vef Vegagerðarinnar segir að sprungurnar séu ekki stórar og því sé ekki ástæða til að loka veginum. Vegfarendur eru hvattir til að fara varlega á þessum slóðum en sprungurnar eru um 1,3 kílómetra vestan við Vigdísarvallaveg. Skemmdir verða skoðaðar nánar og gert við veginn eins fljótt og kostur er. Nú er verið að koma upp merkingum við veginn og ökumenn hvattir til að fara að öllu með gát á þessum slóðum.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir að vel hafi verið fylgst með svæðinu síðustu daga. „Þetta er í sjálfu sér ekki mjög stórt en það þarf að fylgjast með þessu og svæðinu áfram. Við vörum við þessu í þessu tilviki, það er ekki ástæða til að loka veginum en síðan þurfum við að huga að viðgerð á þessu,“ segir G. Pétur. 

Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin