Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Spila jarðskjálftabingó í hrinunni í Grindavík

Mynd með færslu
 Mynd: samsett mynd - RÚV
Ólöf Daðey Pétursdóttir býr ásamt fjölskyldu sinni í Grindavík og þau, eins og allir á því svæði, hafa fundið vel fyrir snörpum jarðskjálftum í hrinunni síðustu daga. Til að slá á ótta barnanna eftir stóra skjálftann í morgun, sem var 5,2 að stærð, útbjó hún jarðskjálftabingó sem virkar þannig að á reitunum eru ákveðnar staðsetningar og keppnismál er að fylla út sem flesta reiti, það er að upplifa skjálfta á sem flestum stöðum í daglegu lífi.

Ólöf á þrjú börn og eftir skjálftann í morgun spurði eitt þeirra hana hvort þau væru í hættu. Hún útskýrði stöðuna fyrir barninu og í framhaldinu bjuggu þau öll saman til skjálftabingóið sem hefur vakið mikla lukku. 

Hér má sjá mynd af tveimur af bingóspjöldunum sem Ólöf gerði eftir sniði á netinu og prentaði út.

Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Daðey Pétursdóttir - aðsend mynd

Börnin völdu staðina sem eru í reitunum. Strax eru þau búin að fylla út í um tíu reiti enda virðist ekkert lát á hrinunni. Eitt þeirra fann fyrir skjálfta þegar það var í tölvunni, eitt í sófanum og á íþróttaæfingu. „Við verðum örugglega búin að fylla þetta um helgina,“ segir Ólöf um bingóspjöldin. Fjölskyldan ætlar saman í sund í dag og segir hún aldrei að vita nema þau finni fyrir skjálfta þar. 

Mynd með færslu
Ólöf Daðey ásamt börnum sínum þremur og vini þeirra.