Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Skelfur Reykjanes, Reykjaneshryggur eða Reykjanesskagi?

Mynd:  / 
„Það ber á því í daglegu tali og í fjölmiðlum að talað sé um jarðskjálfta á Reykjanesi. Strangt til tekið er Reykjanes bara hluti af Reykjanesskaganum,“ segir Anna Sigríður Þráinsdóttir, málfarsráðunautur RÚV.

Anna var í viðtali í morgunútvarpi Rásar tvö föstudaginn 26. febrúar og sagði núverandi jarðskjálftahrinu strangt til tekið ekki vera á Reykjanesi. „Fóturinn sem gengur út frá Íslandi á kortinu heitir Reykjanesskagi,“ segir hún. 

Jörðin og landssvæðið Reykjanes

Reykjanesskagi segir Anna að nái alveg frá Reykjanesinu sjálfu, innundir Reykjavík og að Seltjarnarnesi.

Skaginn beri nafn sitt af jörðinni Reykjanesi sem er á suðvesturhorni skagans og þar megi finna mörg merkileg náttúrufyrirbæri þar og skemmtileg örnefni.

Í bókunum Landið þitt Ísland gera höfundarnir Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson, því skóna að Þorvaldur Thoroddsen hafi fyrstur nefnt svæðið suðvestan Hafnarfjarðar Reykjanesskaga.

Þorvaldur fæddist 1855 og var fyrstur Íslendinga til að nema og stunda jarðfræði. 

Hann vakti mikla athygli, innan- og utanlands, fyrir rannsóknir sínar á jarðfræði Íslands. Eftir hann liggja mikil ritverk um náttúru og jarðfræði landsins, þeirra á meðal Landskjálftar á Íslandi og Lýsing Íslands.

Málvenja frá því um 1959

Björn S. Stefánsson, leiðsögumaður með meiru, segir að sú málvenja að nota orðið Reykjanes yfir allan skagann hafi orðið til eftir 1959 þegar Reykjaneskjördæmi varð til.

Hann segir sömuleiðis að vilji fólk virða hefðbundið mál sjómanna og Suðurnesjamanna segi það ekki að fjallið Keilir sé á Reykjanesi heldur Reykjanesskaga. Heldur sé Keflavík ekki á Reykjanesi, heldur á Suðurnesjum.

Jarðfræðilega nær Reykjanesskagi austur að þrígreiningu plötuskilanna sunnan Hengils. Reykjanesskagi er svokallað sniðrekbelti og fer gliðnunin fram í Norðaustur-suðvestur eldstöðvakerfum, sem eru tugir kílómetra að lengd, með misgengjum, gjám og gígaröðum.

Hæll og tá - Suðurnes og Reykjanes

Anna Sigríður segir það geta valdið ruglingi að kalla skagann allan Reykjanes. einnig finnist mörgum skrytið að Reykjanestá sé á því sem líkist hælnum, þegar horft sé á landakort.

„Okkur sem ekki erum fædd þarna og uppalin finnst þetta vera hæll en ekki tá og táin er fyrir ofan þar sem heitir Garðskagi,“ segir Anna. Hún rifjar upp að byggðarlögin á Reykjanesskaga eru gjarna kölluð einu nafni Suðurnes og fólkið sem þar býr Suðurnesjamenn.

Hún kvað það viðurnefni á undanhaldi en Rúnar Róbertsson, annar þáttastjórnanda, minnti hana þá á Suðurnesjabæ sem varð til við sameiningu Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs árið 2018.

Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur er alin upp í Garði og segist ekki kannast við notkun orðsins Reykjanesskagi. Annað fólk í Garðinum noti skagaorðið en til dæmis noti föðurbróðir hennar það ekki.

Hann telur að orðin skagi og nes geti ekki átt heima í sama orðinu. Hún spyr til dæmis hvernig eigi að fara með Garðskaga, sem megi þá segja að sé skagi út af Reykjanesskaganum. 

Í skrifum Svavars Sigmundssonar, fyrrverandi forstöðumanns Örnefnastofnunar, kemur fram að á fyrri hluta 20. aldar töldust Suðurnes ná frá Vatnsleysuströnd að Garðskaga og þaðan alla leið til Krýsuvíkur. Sú málvenja hafi fest sig í sessi síðan þá. 

Reykjanesskagi er á Reykjaneshrygg

„Iðulega er talað um í fréttum að jarðskjálftar verði á Reykjaneshrygg,“ segir Anna Sigríður en bendir á að hann sé neðansjávarhryggur sem vissulega gengur á land á Reykjanesskaga. Hann sé því er efsti hluti Reykjaneshryggs.

„Ísland stendur á Miðatlantshafshryggnum en Reykjaneshryggur og Kolbeinseyjarhryggur eru angar út af honum. Gosbeltið er á þessum hryggjum. Nú verða allir landfræðingar brjálaðir.“

Anna segir að þótt fréttamenn og dagskrárgerðarfólk sé alltaf vel upplýst sé ekki hægt að vita allt og enn síður um málvenjur heimafólks. „Partur af því að vernda tungumál er að fara rétt með staðarnöfn og þess háttar, að við vitum hvernig landið liggur og hvað það heitir.“  

Reykjanesskaginn er í dag Reykjanes Unesco Hnattrænn Jarðvangur og  hluti netverks jarðvanga um allan heim. Þeir eiga allir það sameiginlegt að búa að einstakri náttúru og jarðminjum.