Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Minniháttar skemmdir á Landspítala eftir skjálfta

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Á Landspítalanum, líkt og víðar, er fólk í viðbragðsstöðu vegna skjálftahrinunnar. Þar hefur verið farið yfir viðbragðsáætlanir í vikunni vegna skjálftanna. Smávægilegar skemmdir urðu í skjálftanum á miðvikudagsmorgunn en ekki hefur verið tilkynnt um neitt slíkt eftir skjálftann í morgun, að sögn Önnu Sigrúnar Baldursdóttur, aðstoðarmanns forstjóra spítalans. Ekki hefur þurft að fresta aðgerðum.

Fram kom í frétt mbl.is í gær að minniháttar skemmdir og vatnsleki hafi komið í ljós eftir skjálftann á miðvikudag.

„Við höfum yfirfarið kerfin hjá okkur og niðurstaðan er sú að öll kerfi og veitur héldu hjá okkur, nema kannski vatnslögnin á Vífilsstöðum. Þar fór ein slík í sundur. Það komu síðan sprungur í veggi í byggingum hjá okkur og einhver hreyfing á loftaplötum hér og þar en þetta var ekkert meiriháttar tjón neins staðar,“ segir Anna Sigrún. 

„Við þurftum ekki að fresta neinum aðgerðum og það sem við vorum að gera kláruðum við. Þannig að ég myndi segja að í heildina hafi spítalinn staðist þetta álagspróf en við erum auðvitað við öllu búin og á tánum eins og aðrir og yfirförum okkar áætlanir og viðbragðsáætlanir vegna jarðvár og svo framvegis,“ segir hún. 

Ekki er vitað til þess að skemmdir hafi orðið í skjálftanum í morgun. Anna Sigrún bendir á að um hundrað byggingar tilheyri spítalanum og því taki tíma að yfirfara þær allar, en eins og staðan sé núna hafi ekki komið upplýsingar um skemmdir í dag.