Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Kvíði er mjög sterkt, líkamlegt viðbragð“

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Sóley Dröfn Davíðsdóttir, sálfræðingur á Kvíðameðferðarstöðinni, segir að þeir sem finna fyrir miklum kvíða í þeim náttúruhamförum sem nú standa yfir, þurfi að gera eitthvað í stöðunni. Hún segir hins vegar að kvíði geti verið eðlilegur undir þessum kringumstæðum. Þá sé mikilvægt að tala við börnin um stöðuna.

„Það er alveg eðlilegt að vera pínu vakandi yfir þessu og kannski eilítið á varðbergi. En ef við erum mjög hrædd, þá erum við líklega að ofmeta hættuna og vanmeta getu okkar til þess að takast á við þetta,“ segir Sóley.

„Kannski ekki alslæmt“

Sóley segir að meta þurfi hvort kvíðinn sé eðlilegur, eða hvort hann sé kominn yfir ákveðin mörk.

„Það tengist því hvernig maður hugsar. En kvíði er mjög sterkt, líkamlegt viðbragð, eins og öröndun, hjartsláttur, svimi og sviti. Þannig að það eru fullt af einkennum sem heyra til kvíða. Þannig að ef þessi einkenni eru orðin mjög sterk, þá er kannski eitthvað sem þarf að gera í stöðunni.“

Sóley segir að gott sé fyrir fólk að minna sig á að hættan sé líklega ekki mikil. Þá sé mikilvægt  að halda áfram með daglegt líf og haga sér eðlilega. Loks sé gott að tala við börnin um stöðuna, enda geti þau einnig fundið fyrir kvíða.

„Kannski bara að tala um þetta sem áhugavert fyrirbæri, fræða þau aðeins um hvað er í gangi, því öll þekking dregur úr ótta. Skoða þetta bara af forvitni og minna sig á að þetta eru ekki það sterkir skjálftar. Og þeir draga líka úr spennu, svona litlir skjálftar, þannig að það er kannski ekki alslæmt að þeir eigi sér stað,“ segir Sóley.