
Hundruð fanga á flótta á Haítí
Exantus sagði á blaðamannafundi í gær að yfir 1.100 af rúmlega 1.500 föngum sem sitja í Croix-des-Bouquets fangelsinu hafi enn verið í klefum sínum í gærmorgun. Búið er að handsama um helming þeirra sem sluppu, en 200 eru enn á flótta. Að sögn Exantus leitar lögreglan þeirra. Sumir fanganna eru handjárnaðir og komast því ekki mjög langt.
Einn fanganna sem lést á flóttanum er glæpaklíkuforinginn Arnel Joseph. Hann var skotinn til bana af lögreglu þegar hann réðist á lögreglu við eftirlit um 120 kílómetrum frá fangelsinu. Joseph var foringi einnar stærstu glæpaklíku Haítí þegar hann var handtekinn árið 2019. Hann reyndi einnig að flýja í júlí í fyrra. Tilraun hans var stöðvuð eftir að yfirvöld komust á snoðir um myndband á samfélagsmiðlum þar sem hann auglýsti flóttaáætlun sína. Joseph hafði tvisvar áður sloppið úr öðru fangelsi í höfuðborginni, árin 2010 og 2017. Þar sat hann inni fyrir morð.