Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hundruð fanga á flótta á Haítí

epa09037315 Police patrol outside the Croix-des-Bouquets prison after a prison break, near Port-au-Prince, Haiti, 25 February 2021. At least seven people died and several were injured as some prisoners escaped the correctional facility outside Port-au-Prince. According to witnesses, several people were shot dead in the streets surrounding the prison while police managed to capture some of the fugitives.  EPA-EFE/Tcharly Coutin
 Mynd: EPA-EFE - EFE
25 eru látnir eftir að 400 fangar brutu sér leið úr fangelsi í úthverfi Port-au-Prince, höfuðborgar Haítí, í gær. Almennir borgarar eru meðal hinna látnu, auk sex fanga og fangelsisstjórans Paul Hector Joseph. AFP fréttastofan hefur eftir samskiptaráðherranum Frantz Exantus að fangarnir hafi orðið almennum borgurum að bana á flóttanum.

Exantus sagði á blaðamannafundi í gær að yfir 1.100 af rúmlega 1.500 föngum sem sitja í Croix-des-Bouquets fangelsinu hafi enn verið í klefum sínum í gærmorgun. Búið er að handsama um helming þeirra sem sluppu, en 200 eru enn á flótta. Að sögn Exantus leitar lögreglan þeirra. Sumir fanganna eru handjárnaðir og komast því ekki mjög langt.

Einn fanganna sem lést á flóttanum er glæpaklíkuforinginn Arnel Joseph. Hann var skotinn til bana af lögreglu þegar hann réðist á lögreglu við eftirlit um 120 kílómetrum frá fangelsinu. Joseph var foringi einnar stærstu glæpaklíku Haítí þegar hann var handtekinn árið 2019. Hann reyndi einnig að flýja í júlí í fyrra. Tilraun hans var stöðvuð eftir að yfirvöld komust á snoðir um myndband á samfélagsmiðlum þar sem hann auglýsti flóttaáætlun sína. Joseph hafði tvisvar áður sloppið úr öðru fangelsi í höfuðborginni, árin 2010 og 2017. Þar sat hann inni fyrir morð.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV