Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Forsetinn þakkar læknunum sem græddu hendur á Guðmund

Mynd með færslu
 Mynd: Sylwía Grétarsson - RÚV
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sendi nýverið árnaðaróskir og þakkir íslensku þjóðarinnar til læknateymisins sem annaðist ágræðslu handleggja Guðmundar Felix Grétarssonar.

Guðmundur Felix greindi sjálfur frá þessu á Facebook-síðu sinni og sagðist hafa fyllst auðmýkt og þakklæti þegar hann frétti af bréfinu. Hann segir draum sinn uppfylltan eftir það sem honum hafi stundum fundist einmanaleg vegferð og oft næsta vonlaus.

Forseti Íslands til veislu með 200 dönskum blaðamönnum

Í bréfinu, sem stílað er á skurðlækninn Lionel Badet, kemur fram að Íslendingar allir hafi fylgst með vegferð Guðmundar frá því að hann lenti í skelfilegu slysi í lok síðustu aldar.

Sömuleiðis hafi allir tekið eftir og dáðst að viljastyrk hans, þrautseigju, þolinmæði og hugrekki. Í bréfi forsetans kemur fram mikil aðdáun á og þakklæti fyrir það mikla afrek læknisfræðinnar sem unnið var með því að græða handleggi á Guðmund Felix.

Forseti Íslands til veislu með 200 dönskum blaðamönnum

„Ykkur tókst það sem fyrir skömmu hefði verið talið útilokað, en með reynslu ykkar og sérfræðiþekkingu að vopni gekk það eftir,“ segir í bréfi forsetans og að læknarnir hafi með því skapað sér virðingu heillar þjóðar.

Þetta mikla, sögulega afrek segir Guðni að auki tiltrúna á vísindi á tímum heimsfaraldurs kórónuveiru og þakklætið sé því enn meira í ljósi þeirra ógnvænlegu aðstæðna sem heimsbyggðin býr við vegna faraldursins.

Guðni segir að þótt enn sé of snemmt að ákvarða um árangur aðgerðarinnar fari ekki milli mála að teymið hafi gert sitt allra besta. Hugur Íslendinga sé með Guðmundi Felix á leið hans til bata og endurhæfingar, segir í bréfi Guðna sem óskar Lionel Badet og teyminu öllu hins besta í ókominni framtíð. 

Í færslu á Facebook-síðu sinni þann 25. janúar skrifaði Guðni um þær miklu framfarir sem hefðu orðið í læknavísindum, og nefndi meðal annars handaágræðsluna sem dæmi um það. 

„Alveg er einstakt hvers læknavísindin eru megnug, hversu miklar framfarir hafa orðið á þeim vettvangi og hvernig við erum sífellt að finna nýjar leiðir til að bæta mein, koma fólki á bataveg og lækna sjúkdóma.“