Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ekki hægt að útiloka stærri skjálfta

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Þetta er orðin ansi öflug hrina held ég að við getum sagt,“ sagði Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvaktar Veðurstofu Íslands, í miðnæturfréttum útvarps í kvöld. Hún segir að starfsmenn veðurstofunnar hafi legið yfir gömlum mælingum til þess að athuga hversu langt aftur þarf að fara til að finna álíka hrinu.

„Þá kemur í ljós að árið 1973, í september, þá var kannski álíka mikil virkni og hefur verið nú. Svo þurfum við að leita aftur til 1933 til að finna eitthvað viðlíka,“ sagði Kristín. Miðað við þessa sögu segir Kristín að ekki sé hægt að útiloka stærri skjálfta í þessari hrinu.

Rúmlega 50 skjálftar hafa mælst yfir þremur að stærð á Reykjanesskaga síðan í hádeginu í dag. Þar af hafa tíu mælst fjórir eða stærri. Stærsti skjálftinn í dag mældist 4,9 á ellefta tímanum í kvöld. 

Kristín segir ekkert benda til gosóróa á Reykjanesskaga og ekkert í hendi um kvikuinnskot í þessum skjálftum líkt og þegar hrinan hófst í fyrra. „Kvikuinnskotin voru á öðrum stöðum. Það var kvikuinnskot fyrir vestan Þorbjörn og svo aftur í Krýsuvík. Þessir skjálftar eru allir við Fagradalsfjall,“ sagði Kristín.