Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ekkert bendir til að kvika sé á leið upp á yfirborð

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Jarðskjálftamælingar, GPS gögn, gasmælingar og úrvinnsla úr gervitunglamyndum gefa engar vísbendingar um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið.

Þetta er meðal þess sem vísindaráð almannavarna ræddi á fjarfundi í dag þar sem fjallað var um jarðskjálftahrinuna sem hófst að morgni 24. febrúar með skjálfta að stærðinni 5,7 og öðrum 5,0 skömmu síðar. Síðan þá hafa yfir 7.200 skjálftar mælst.

Fulltrúar frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Umhverfisstofnun, Isavia-ANS, HS-Orku og ÍSOR sátu fundinn. Skjálftahrinan nú er sú öflugasta frá árinu 1933 og er fyrst og fremst bundin við svæðið umhverfis Fagradalsfjall eftir 5,2 stiga jarðskjálftann í morgun.

Virknina nú má rekja um eitt ár aftur í tímann, hún hefur verið kaflaskipt en vísindamenn horfa nú til þess að annað hvort dragi úr jarðskjálftavirkni næstu daga og vikur eða að hrinan færist í aukana með skjálfta sem gætu náð að vera 5,5 til 6,5 að stærð.

Árið 1933 urðu nokkrir kröftugir skjálftar á sama svæði án þess að til eldgoss kæmi og á hið sama við um hrinu sem varð 1973. Skjálftarnir núna eru flestir á um fimm kílómetra dýpi við fjallið og hafa ekki færst nær yfirborði, en það gæti verið vísbending um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið.

Hús á Íslandi eru langflest þannig byggð að þau standast þá jarðskjálfta sem nú ríða yfir en á hinn bóginn geta lausir munir, hillur, skápar og þvíumlíkt valdið hættu sé ekki tryggilega frá þeim gengið.

Því er brýnt fyrir fólki að huga að innanstokksmunum heima fyrir og á vinnustöðum til að koma í veg fyrir slys.

Vísindaráð almannavarna fundar að nýju í næstu viku en Veðurstofan, Háskólinn og fleiri vinna að því að fjölga mælitækjum á Reykjanesskaga næstu daga og vikur.

Náið verður fylgst með framvindu mála áfram en búist er við að virkni haldi áfram á svæðinu næstu daga.