„Ég kyssti hana líka, bara svo það sé á hreinu“

Mynd: Núll og nix / Daði og gagnamagnið

„Ég kyssti hana líka, bara svo það sé á hreinu“

27.02.2021 - 11:18

Höfundar

Daði Freyr og Árný Fjóla kynntust í Fjölbrautaskólanum á Selfossi en byrjuðu ekki að vera par fyrr en tveimur árum síðar, þegar Árný tók af skarið og kyssti Daða á Hróaskelduhátíðinni 2010. Daði vill þó meina að kossinn hafi verið sameiginleg ákvörðun. Eurovision-framlag Íslendinga 2021 fjallar um samband þeirra sem hefur varað í tíu ár.

Í vikunni var kunngjört hvað lagið heitir sem Daði og Gagnamagnið flytja fyrir hönd Íslands í Eurovision í Rotterdam í vor. Það verður flutt á ensku og nefnist 10 years, og fjallar um þau tíu ár sem Daði og Árný Fjóla kona hans hafa verið saman. Þau kynntust í Fjölbrautaskólanum á Selfossi þegar þau léku saman í söngleiknum Grease Horror en urðu ekki par fyrr en tveimur árum síðar.

SMS fyrir þúsundkall á kvöldi

Á þessum tíma fóru samtöl ekki fram í gegnum vefinn í eins ríkum mæli og í dag og þar sem snjallsímar voru ekki komnir til sögunnar töluðu þau fyrst og fremst saman í gegnum SMS skilaboð þegar þau voru ekki á sama stað. Og það gat reynst kostnaðarsamt. „Ég var enn að borga um ellefu krónur fyrir hver skilaboð sem ég sendi henni svo maður gat alveg farið í gegnum þúsund kall á kvöldi til að segja... ekki neitt,“ rifjar Daði upp.

Mynd með færslu
 Mynd: Núll og nix - Daði og gagnamagnið
Á Hróarskeldu 2010 áttuðu þau sig á því að þau væru meira en bara vinir.

„Hann var svo feiminn alltaf“

Þau fóru saman ásamt hópi vina sinna á Hróaskelduhátíðina árið 2010 og þá kviknaði ástareldurinn. „Þá allt í einu fattaði ég að hann væri kannski eitthvað meira en vinur,“ segir Árný. Og samkvæmt henni leikur enginn vafi á því hver steig fyrsta skrefið. „Ég kyssti hann fyrst, hann má ekki taka það af mér. Hann var svo feiminn alltaf,“ segir hún.

Heimildarþættir um hljómsveitina

Daði vill þó meina að frumkvæðið hafi líka verið hans. „Ég vil meina að þetta hafi verið sameiginleg ákvörðun, ég kyssti hana líka. Við kysstumst.“

Í kvöld og næsta laugardagskvöld verða sýndir heimildarþættir um Daða og Gagnamagnið og þá fá áhorfendur að kynnast sögu hljómsveitarinnar. Lagið 10 years verður svo frumflutt í fyrsta þætti af nýjum tónlistar- og skemmtiþáttum, Straumum, laugardaginn 13. mars.

Daði og Gagnamagnið er á dagskrá í kvöld klukkan 19:45.

Tengdar fréttir

Tónlist

Eurovision-lag Íslands komið með nafn

Tónlist

Daði undirbýr Eurovision: „Ég ætla að reyna að vinna“