Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Árásin skýr skilaboð frá Biden

27.02.2021 - 03:01
epa09039278 A handout satellite image made available by MAXAR Technologies shows a close up of buildings at the Iraq-Syria border crossing before the US airstrikes, 03 February 2021 (issued 26 February 2021). United States officials said on 26 February 2021 that overnight airstrikes ordered by US president Joe Biden hit a collection of buildings on the Syrian side of a border with Iraq targeting Iran-backed militia Kataib Hezbollah and an affiliated group.  EPA-EFE/MAXAR TECHNOLOGIES HANDOUT -- MANDATORY CREDIT: SATELLITE IMAGE 2020 MAXAR TECHNOLOGIES -- the watermark may not be removed/cropped -- HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - MAXAR TECHNOLOGIES
Joe Biden sagði blaðamönnum vestanhafs í gær að loftárásir Bandaríkjahers í Sýrlandi á fimmtudagskvöld ættu að vera Írönum víti til varnaðar. Árásirnar voru gerðar á vígahreyfingar sem studdar eru af stjórnvöldum í Teheran.

Fyrr í gær sagði Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúi Bidens, að árásin sendi skýr skilaboð um að Biden ætli sér að vernda Bandaríkjamenn. Þegar lífi Bandaríkjamanna er ógnað eigi hann rétt á að bregðast við þegar, og á þann hátt, sem hann kýs.

Árásirnar á bækistöðvar vígahreyfinganna voru gerðar vegna nokkurra flugskeytaárása á skotmörk í Írak. Í einni þeirra fórst almennur borgari og starfsmaður verktakafyrirtækis sem vinnur fyrir fjölþjóðlega hersveit sem berst gegn hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki. Þá særðust nokkrir bandarískir verktakar og einn bandarískur hermaður.

Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur ekki staðfest hversu margir féllu í árásum hersins í Sýrlandi á fimmtudag. Sýrlenska mannréttindavaktin kveðst hafa heimildir fyrir því að 22 vígamenn hafi fallið.

John Kirby, talsmaður varnamálaráðuneytisins, segir að sjö stýriflaugar hafi lagt níu mannvirki í rúst og skemmt tvö önnur verulega. Hann segir nær öruggt að mannvirkin hafi tengst hópunum sem hafa gert árásir á bækistöðvar bandarískra hermanna í Írak.