
Árásin skýr skilaboð frá Biden
Fyrr í gær sagði Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúi Bidens, að árásin sendi skýr skilaboð um að Biden ætli sér að vernda Bandaríkjamenn. Þegar lífi Bandaríkjamanna er ógnað eigi hann rétt á að bregðast við þegar, og á þann hátt, sem hann kýs.
Árásirnar á bækistöðvar vígahreyfinganna voru gerðar vegna nokkurra flugskeytaárása á skotmörk í Írak. Í einni þeirra fórst almennur borgari og starfsmaður verktakafyrirtækis sem vinnur fyrir fjölþjóðlega hersveit sem berst gegn hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki. Þá særðust nokkrir bandarískir verktakar og einn bandarískur hermaður.
Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur ekki staðfest hversu margir féllu í árásum hersins í Sýrlandi á fimmtudag. Sýrlenska mannréttindavaktin kveðst hafa heimildir fyrir því að 22 vígamenn hafi fallið.
John Kirby, talsmaður varnamálaráðuneytisins, segir að sjö stýriflaugar hafi lagt níu mannvirki í rúst og skemmt tvö önnur verulega. Hann segir nær öruggt að mannvirkin hafi tengst hópunum sem hafa gert árásir á bækistöðvar bandarískra hermanna í Írak.