Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Almar Sigurðsson vill fara fyrir VG í Suðurkjördæmi

Mynd með færslu
 Mynd: Almar Sigurðsson
Almar Sigurðsson sem rekur gistiheimlið að Lambastöðum í Flóhreppi sækist eftir því að skipa fyrsta sæti lista Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Suðurkjördæmi.

Almar hefur verið formaður Svæðisfélags VG í Árnessýslu, setið í stjórn kjördæmisráðs og sinnt formennsku í uppstillingarnefndum hreyfingarinnar. Rafrænt forval VG verður haldið dagana 10. til 12. apríl næstkomandi. 

Þegar hafa Hólmfríður Árnadóttir skólastjóri Sandgerðisskóla, Róbert Marshall upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, Kolbeinn Óttarsson Proppé þing­maður Reykja­víkur­kjör­dæmis suður og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, varaþingmaður og sauðfjárbóndi gefið kost á sér í efsta sæti listans.

Suðurkjördæmi hefur 10 sæti á Alþingi, þar af eitt jöfnunarsæti en VG fékk einn þingmann kjörinn þar í kosningunum 2017. Það var Ari Trausti Guðmundsson sem hefur ákveðið að láta af þingmennsku.