Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vélmennin sem hringuðu heiminn leggja hjálma á hilluna

Mynd: - / CC

Vélmennin sem hringuðu heiminn leggja hjálma á hilluna

26.02.2021 - 11:15

Höfundar

Á mánudag varð ljóst að franska danstónlistartvíeykið Daft Punk hafði lagt árar í bát eftir 28 ára feril. Stórveldi var fallið. Þetta kunngerði sveitin með myndskeiði undir yfirskriftinni eftirmáli, sem kemur úr lokasenu Daft Punk-kvikmyndarinnar Electroma frá 2006 þar sem tvö vélmenni kveðjast í eyðimörk áður en annað þeirra gengur í áttina að sólarlaginu og sprengir sig svo í loft upp.

Þegar Daft Punk stigu á sjónarsviðið um miðjan tíunda áratuginn voru þeir í framlínu danstónlistarbyltingarinnar, en hafa síðan enduruppgötvað sig með hverri plötu og haft mótandi áhrif hljóðheim, myndmál og goðsagnasköpun popptónlistar samtímans.

Þeir Guy-Manuel de Homem-Christo og Thomast Bangalter eru fæddir 74 og 75 í París og kynntust í gagnfræðaskóla þar sem þeir urðu vinir og tónlistarfélagar. Árið 1992 stofnuðu þeir rokksveitina Darlin ásamt Laurent Brancowitz sem komst á mála hjá útgáfu sem var rekin af Stereolab sem þeir hituðu upp fyrir nokkrum sinnum. Darlin hlaut slæma útreið fyrir frammistöðu sína á tónleikum í breska tímaritinu Melody Maker þar sem tónlistinni var lýst sem bjánalegu pönki, Daft Punk. Stuttu síðar leystist Darlin upp en þeir Bangalter og Homem-Christo gripu frasa blaðamanns Melody Maker á lofti og notuðu sem titil á nýtt verkefni þar sem trommuheilar, svuntuþeysarar og hústónlist voru sett í öndvegi.

Heimagert fönk

Árið 1993 hittu félagarnir forstjóra Soma-útgáfunnar á reifi í Euro-Disney og fyrsta smáskífa Daft Punk kom út ári síðar. Fyrsti stóri slagarinn kom svo út 1995 þegar Da Funk tröllreið dansgólfum í Evrópu og vestanhafs sem leiddi til þess að stærstu plötufyrirtæki heims kepptust um hylli dúósins, sem á endanum gekk til liðs við Virgin-útgáfuna sem lofaði þeim algjöru listrænu frelsi. Það er auðvelt að sjá hvernig þessi dónalega hljómborðslína, snarpa breikbít og pumpandi einnar nótu bassakeyrsla hefur kveikt bál í brjósti hlustenda sumarið 1996, og ekki skemmdi stórkostlegt myndband meistarans Spike Jonze fyrir.

Þeirra fyrstu breiðskífu sem kom út í janúar 1997 var beðið með harkarlegri eftirvæntingu en stóð undir hverju einasta hæpi. Þeir skýrðu hana Homework því hún var öll tekin upp á heimili Thomas Bangalters á fimm mánaða tímabili. Hún var hrá og einföld en að sama skapi hlaðin gáskafullri hugmyndaauðgi; og sótti meðal annars innblástur sinn í mínímalískt Chicago-house, kalifornískt G-fönk og sýrukennda tekknótónlist. Á henni mátti heyra harða hústóna eins og í Revolution 909, en líka þennan poppfönkaða búgísmell sem hljóp marga sigurhringi kring um heiminn sumarið 1997 eins og segir raunar í titlinum sem eru jafnframt einu orð lagsins, Around the World. Þar syngja Daft Punk-liðar í gegn um svokallaðan vókóder, tæki sem umbreytir mannsröddinni í surgandi maskínuorg, og átti eftir verða eitt þeirra helsta einkennismerki, yfir bassalínu sem hlýtur að teljast með þeim bestu á tíunda áratugnum.

Homeworld seldist vel og fékk gríðargóða dóma gagnrýnenda. Margir hverjir sögðu hana frumlega vítamínsprautu í staðnaða hústónlist þess tíma. Daft Punk túruðu heiminn þveran og endilangan í kjölfarið en hófu svo upptökur á sinni annarri breiðskífu árið 1998. Hún kom út í mars 2001 og byggði ofan á það sem Homework hafði lagt, og þó að hústónlist sé enn þá grunnurinn þá er Discovery stærri, poppaðari, melódískari og meira sillí en fyrirrennarinn. Bangalter og Homem-Christo sögðu að titillinn Discovery vísaði í uppgötvunarfasa barnæskunnar þegar þeir innbyrtu tónlist af meiri sakleysi og undrun en síðar varð.

Mjög diskó

Fyrsta smáskífan One More Time ber þess glöggt merki en hún varð þeirra vinsælasta lag til þessa. Þá var Harder Better Faster Stronger með hikstaskoppandi fönkgrúvi sem er meira smitandi en spænska veikin og hlustandinn getur ekki annað en að hoppa í takt. Önnur útlegging á titilinum Discovery gæti verið að slíta hann í tvennt og snúa við, Disco Very, Very Disko, en platan er uppfull af diskói, fönki, RogB og skúturokki síð áttunda til snemm níunda áratugarins. Daft Punk tóku element frá artistum eins og Chic, Rick James, Earth Wind and Fire og Doobie Brothers en filteruðu í gegn um sína eigin síu og bræddu saman í maxímalískt meistaraverk af áður óþekktri kátínugráðu; þar sem kúlinu er hent út í hafsauga og barnsleg gleði drýpur af hverri einustu sekúndu. Ég myndi til dæmis efast allaverulega um lífsmörk þess sem brosir ekki út að eyrum yfir gítarsólóinu í lok lagsins Digital Love.

Fram til þessa höfðu Bangalter og Homem-Christo hugsað mikið um myndræna framsetningu tónlistarinnar, voru með flott einkennismerki og unnu tónlistarmyndbönd með framsæknum leikstjórum eins og Spike Jonze og Michel Gondry. En á Discovery tóku þeir það enn þá lengra og létu framleiða heila teiknimynd í japanska anime-stílnum við tónlist plötunnar, Interstellar 5555. En áður en platan kom út fæddust líka þeir Daft Punk-liðar sem við þekkjum í dag, vélmennin. Á seinni hluta tíunda áratugarins fóru  Bangalter og Daft Punk í tónleikaferðir en allt frá byrjun vildu þeir ekki birta myndir af andlitum sínum fjölmiðlum; sögðust ekki hafa neinn áhuga á að vera þekktir úti á götu auk þess sem tónlistin ætti að tala fyrir þá, í þau fáu skipti sem þeir veittu viðtöl voru myndir af þeim birtar með andlitsgrímur. En í kynningarherferð fyrir Discovery birtust fyrst myndir af þeim með vélmennahjálmana sem allar götur síðan hafa verið eitt þeirra sterkasta einkennismerki.

Pýramídinn reistur

Þriðja breiðskífan Human After All kom út árið 2005 og var aftur nokkuð róttæk stílbreyting. Hún var samin og tekin upp á aðeins sex vikum og hljómurinn mun hrárri en áður. Eftir á að hyggja mætti segja að rokkbjöguðu synþarnir og stafrænu skruðingarnir á plötunni hafi verið upptaktur að hinni svokölluðu Blog-House-stefnu sem var geysivinsæl frá ca. 2006 til 10, þar sem sveitir eins og Simian Mobile Disco, og samlandar Daft Punk í Justice voru í fararbroddi. Human After All hlaut nokkuð misjafna dóma þegar hún kom út en virðing hennar hefur vaxið jafnt og þétt síðan. Lög eins og titillagið, Robot Rock og Technologic eru með því besta sem komið hefur frá dúóinu og mörg laganna fengu uppreist æru í live-flutningi rúmlega ári síðar.

Árið 2006 kemur út kvikmyndin Daft Punk‘s Electroma þar sem skráður leikstjóri er Daft Punk og yfirtökumaður Thomas Bangalter. Electroma er draumkennd og súrrealísk sæ-fæ-mynd án orða þar sem við fylgjum tveimur vélmennum í vegferð sem endar með því að annar þeirra springur í loft upp. Sú sena var einmitt í myndbandinu sem sleppt var á mánudag og var kynnt með titlinum „Eftirmáli“ en í því miðju má sjá skilti með áletruninni „Daft Punk: 1993-2021. Árið 2006 mæta Daft Punk á Coachella-hátíðina í Kaliforníu og endurskrifa reglubókina um hvernig hægt er að gera raftónlist „Live“. Þarna voru Thomas Bangalter og Guy-Manuel de Homem-Christo, með glansandi vélmennahjálmana, innan í risastórum pýramídahlöðnum LED-ljósum og spiluðu stórfenglegar syrpur úr sínum frægustu lögum.

Dúettinn ferðaðist með pýramídann milli íþróttaleikvanga og tónlistarhátíða næstu árin og gaf út frábæru tónleikaplötuna Alive 2007 í nóvember það ár. Bangalter og Homem-Christo léku lítil hlutverk í endurgerð Tron frá 2010 auk þess að semja hljóðrásina en átta löng ár liðu milli breiðskífna hjá dúettinum, og við fengum loksins Random Access Memories í hendurnar sumarið 2013. Þar endursköpuðu Daft Punk sig enn aftur og voru nú komnir nánast handan við danstónlistina sem þeir spruttu upp úr. Þar var lítið um trommuheila og forritun en platan einkenndist þeim mun meira af „live“ spilamennsku færra session-leikara með pony-tail, og hún var ekkert heimaverkefni heldur tekin upp í mörgum frægustu hljóðverum Bandaríkjanna, svo sem Electric Lady Studios.

Snekkju- og brúðkaupspopp

Random Access Memories er áttatíu mínútna köflótt ferlíki og óður til fágaðs fullorðinspopps áttunda áratugarins, þar sem Daft-pönkararnir sækja í diskó, fönk og mjúkrokkað snekkjurokk með viðkomu í progguðu söngleikjapoppi. Meðal gesta voru Chic-gítarvélin Nile Rodgers, upptökustjórinn og rafdiskófrömuðurinn Giorgio Moroder og Strokes-söngvarinn Julian Casablancas. Á henni má líka finna dúnmjúka diskósmellinn Get Lucky sem Pharrell Williams syngur en það toppaði vinsældalista um víða veröld og er orðinn standard hjá trúbadorum, í brúðkaupum og á lagalistum verslunarmiðstöðva.

En nú eru átta ár liðin frá Random Access Memories og Daft Punk hefur látið lítið fara fyrir sér síðan. Síðustu tónleikarnir þeirra voru 2007 ef frá eru talin einstaka atriði á Grammy-verðlaunahátíðinni. Mér varð einmitt hugsað til þeirra bara í síðustu viku og hafði á orði við vin hvort það færi ekki að styttast í plötu frá Parísar-strákunum. En í staðinn fengum við þetta hryggilega myndband um endalokin. Ekkert var gefið uppi um ástæðuna.

Pýramídinn hefur verið jafnaður við jörðu og grúvsjúku vélmenninn hafa lagt hjálminn á hilluna. En þeir eru þó ekki dauðir þannig við getum alltaf vonað að þeir taki upp þráðinn þegar grái fiðringurinn ásækir þá, setji aftur upp hjálmana og brölti upp í pýramídann, og gefi okkur, eins og segir í laginu, eitt skipti í viðbót. Stórveldið er kannski fallið en sigrar þess sýna ekki á sér neitt fararsnið. Daft Punk heldur áfram að spila í húsi James Murphy, diskótekum, næturklúbbum og heilum fólks um heim allan. Þegar lögð eru saman áhrif tónlistar og myndmáls er mögulega ekkert raftónlistarverkefni utan Kraftwerks sem hefur haft jafn mótandi áhrif á popplandslag samtíma síns. Daft Punk er hætt, lengi lifi Daft Punk!

Tengdar fréttir

Tónlist

Daft Punk: „Við höfum ekkert á móti persónudýrkun“

Tónlist

Hljómsveitin Daft Punk hætt

Tónlist

Daft Punk sigurvegarar á Grammy