Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Um tíundi hver komufarþegi bólusettur

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Hátt í einn af hverjum tíu farþegum sem hafa komið til landsins undanfarna daga hafa verið bólusettir við COVID-19 og álíka hátt hlutfall framvísar vottorði um að hafa fengið COVID. Lögreglan á Keflavíkurflugvelli þarf að hafa ítrekuð afskipti af fólki sem sækir þangað farþega. 

Nýjar reglur um sóttvarnir á landamærunum tóku gildi fyrir viku, nú þurfa allir sem koma til landsins að framvísa smitleysisvottorði, vottorði um bólusetningu eða yfirstaðna sýkingu. Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn flugstöðvardeildar lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að yfirferð vottorðanna sé nokkuð tafsöm.

Sé fólk ekki með vottorð má búast við sektum. Farþega sem kom til landsins í gær var snúið við á Keflavíkurflugvelli og sendur aftur til baka og annar var sektaður um 100.000 krónur vegna þess að þeir voru ekki með smitleysisvottorð. Misjafnt er hversu hátt hlutfall komufarþega hefur verið bólusettur við COVID-19.

„Það eru svona frá engum farþega í hverri vél upp í tíu til tólf. Í gær voru til dæmis tíu farþegar af 150 með bólusetningarvottorð,“ segir Sigurgeir.

En farþegar sem framvísa vottorði um að hafa þegar fengið COVID - eru einhverjir slíkir að koma?  „Já, það eru líka alltaf einhverjir í hverri vél. Frá einum og upp í 12-15.“

Ísland er kannski að verða góður áfangastaður fyrir fólk sem hefur fengið COVID? „Það gæti hugsast,“ segir Sigurgeir.

Hannr segir að enn verði vart við að verið sé að sækja komufarþega í Leifsstöð, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli um að gera það ekki. „Því miður er eitthvað um það ennþá.“

Hafið þið haft afskipti af einhverjum slíkum? „Já, við vísum oft fólki í burt sem við sjáum að er að sækja.“