Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Um 1.400 hafa fengið 8 milljarða í tekjufallsstyrki

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Um 1.400 fyrirtæki hafa nú fengið hátt í átta milljarða greidda í tekjufallsstyrki vegna kórónuveirufaraldursins. Fyrirtæki, sem hafa orðið fyrir meira en 40% tekjufalli, geta sótt um slíka styrki.

Í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu segir að nú hafi alls tugir milljarða verið greiddir í fjölbreyttan stuðning í úrræðum ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins sem eru á annan tug talsins. Undir það falla styrkir, lán, gjaldfrestir og annað.

Tæpir tveir milljarðar hafa verið greiddir í lokunarstyrki sem eru ætlaðir til að koma til móts við þá sem þurftu að stöðva starfsemi sína vegna kórónuveirufaraldursins.