Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Telja krónprinsinn hafa heimilað morðið á Khasoggi

26.02.2021 - 19:19
Mynd með færslu
Mohammed bin Salman krónprins. Mynd:
Bandaríska leyniþjónustan telur afar litlar líkur á að aðgerð sem leiddi til morðs á sádiarabíska blaðamanninum Jamal Khasoggi hafi átt sér stað án samþykkis krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman. Þetta kemur fram í skýrslu leyniþjónustunnar um morðið sem gefin var út nú síðdegis.

Washington Post greinir frá þessu. 

Khasoggi var gagnrýninn á stjórnvöld í Sádi-Arabíu og skrifaði um þau í The Washington Post. Hann var myrtur í sendiráði Sádi-Arabíu í Istanbul í Tyrklandi 2. október 2018. Khasoggi var í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum. Hann þurfti að fara í sendiráðið til að útvega sér pappíra því hann hugðist giftast unnustu sinni.  

Dómstólar í Sádi-Arabíu dæmdu átta manns í fangelsi fyrir morðið en viðurkenndu ekki að stjórnvöld hefðu átt þátt í því. Þeir dæmdu höfðu þó reglulega sést með krónprinsinum. Þá sé morðið hluti af þeirri stefnu krónprinsins að bregðast af öllu afli við gagnrýni frá útlöndum, segir í skýrslunni. 

AFP fréttastofan greinir frá því að búist sé við refsiaðgerðum af hálfu bandarískra stjórnvalda í garð Sádi-Arabíu. Tilkynnt hefur verið að 76 manns frá Sádi-Arabíu fái ekki að koma til Bandaríkjanna. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Antony Blinken, segir í tilkynningu að bregðist verði við öllum tilraunum erlendra ríkisstjórna til að hóta og ráðast á blaðamenn og aðra sem láti í ljós gagnrýni á erlendri grundu. Þeir 76 sem fá ekki að koma til Bandaríkjanna eru taldir hafa hótað blaðamönnum og baráttufólki.  

Hvíta húsið sendi í gærkvöld frá sér yfirlýsingu þess efnis að Joe Biden Bandaríkjaforseti hefði rætt við Salman konung Sádi-Arabíu í síma. Þar kemur meðal annars fram að hann hafi lagt áherslu á að mannréttindi og löghlýðni skipti Bandaríkjamenn miklu máli. Biden hefur þegar lýst því yfir að hann hafi lesið umrædda skýrslu en var fámáll um símtalið þegar hann var spurður út í það í gær.