Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Skjálfti við Keili 4,9 að stærð

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Jörð heldur áfram að skjálfa á Reykjanesskaga og jarðskjálfti 4,9 að stærð varð um 3 kílómetra suðvestur af Keili í kvöld klukkan 22:38. Það er stærsti skjálftinn í hrinunni í dag. Um klukkan átta í kvöld var skjálfti 4,6 að stærð.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands þá fannst skjálftinn á öllum Reykjanesskaganum, höfuðborgarsvæðinu, í Borgarnesi, Vestmannaeyjum og í Rangárvallasýslu. 

Nokkrir skjálftar hafa verið yfir fjórir að stærð í dag, allir á Reykjanesskaga. Aðeins dró úr skjálftavirkninni í gær en um hádegi fór heldur betur að bæta í, að sögn Huldu Rósar Helgadóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Um hádegi í dag kom skjálfti sem var 4,4 að stærð og eftir það þó nokkuð margir skjálftar, sem eru meira en þrír að stærð, komið. 

„Það hafa nokkrir verið fjórir og yfir og sá stærsti kom svo núna í kvöld rúmlega átta hann var fjórir komma sex,“ segir Hulda. „Um klukkan korter í níu var einn sem var fjórir að stærð og þeir bara eru allir að detta inn hérna hver á fætur öðrum.“

Fréttin hefur verið uppfærð.