Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Segja Erítreu seka um glæpi gegn mannkyninu

26.02.2021 - 03:25
This image made from undated video released by the state-owned Ethiopian News Agency on Monday, Nov. 16, 2020 shows Ethiopian military gathered on a road in an area near the border of the Tigray and Amhara regions of Ethiopia. Ethiopia's prime minister Abiy Ahmed said in a social media post on Tuesday, Nov. 17, 2020 that "the final and crucial" military operation will launch in the coming days against the government of the country's rebellious northern Tigray region. (Ethiopian News Agency via AP)
Skriðdrekar og liðsflutningabílar Eþíópíuhers við mörk Tigray Mynd: ASSOCIATED PRESS - Ethiopian News Agency
Her Erítreu er sagður hafa orðið hundruðum að bana í Tigray-héraði Eþíópíu í nóvember í fyrra. Mannréttindasamtökin Amnesty International segja aðgerðir hersins líklega glæp gegn mannkyninu.

Starfsmenn Amnesty töluðu við fólk sem komst lífs af úr árásunum og notuðu gervihnattamyndir til þess að raða saman atburðarásinni í borginni Axum í nóvember síðastliðnum. Deprose Muchena, talsmaður Amnesty, segir gögnin benda til þess að bæði eþíópíski og erítreski herinn séu sekir um fjölda stríðsglæpa í aðgerðum sínum í Axum. Þar að auki hafi erítreskir hermenn gengið berserksgang og kerfisbundið slátrað hundruðum almennra borgara, sem líti út fyrir að vera glæpir gegn mannkyninu, hefur AFP fréttastofan eftir honum.

Enn átök í héraðinu

Átök hafa verið í Tigray síðan Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu, boðaði aðgerðir gegn þjóðfrelsisher Tigray í byrjun nóvember á síðasta ári. Hann lýsti yfir sigri stjórnarhersins eftir að hann náði valdi á héraðshöfuðborginni Mekele í nóvemberlok. Þjóðfrelsisherinn hefur hins vegar ekki gefist upp og átök hafa haldið áfram í héraðinu.

Muchena kallar eftir rannsókn á vegum Sameinuðu þjóðanna á ofbeldinu í Axum. Þeir sem beri ábyrgð á stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyninu verði að vera sóttir til saka í sanngjörnum réttarhöldum. Jafnframt verði að bæta skaða fórnarlamba og fjölskyldna þeirra að fullu.