Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir ekkert óeðlilegt við símtal dómsmálaráðherra

26.02.2021 - 19:32
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Dómsmálaráðherra segist ekki hafa gert mistök þegar hún hringdi í lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu vegna Ásmundarsalarmálsins. Forsætisráðherra segir ekkert óeðlilegt við símtölin.

Í dagbókarfærslu lögreglu á aðfangadag kom fram að háttvirtur ráðherra, sem síðar kom í ljós að var Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, hefði verið í samkvæmi í Ásmundarsal þar sem meint brot á sóttvarnareglum voru framin. Sama dag ræddi Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, í tvígang við Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu.

„Tilefnið var dagbókarfærslan sem vakti athygli fjölmiðla og fjölmiðlar spurðu mig hvort hún væri eðlileg. Ég þekkti ekki verklag dagbókarfærslna lögreglunnar og spurði um það,“ segir Áslaug.

Fannst þér þessi dagbókarfærsla óeðlileg?
„Hún var sérstök og lögreglan hefur orðað það þannig og endurskoðað verklagið,“ segir Áslaug.

Léstu í ljóst þá skoðun þína í símtalinu?
„Nei.“

Áslaug Arna segist ekki hafa gert mistök þegar hún hringdi í Höllu Bergþóru, hún ræði reglulega við lögreglustjórana til að fá upplýsingar um mál sem hún þarf að svara fyrir.

„Fólk vill setja þetta í annað samhengi og er að reyna að láta í það liggja að ég hafi haft einhver afskipti af þessu sem er auðvitað kolrangt,“ segir Áslaug.

Telurðu að þú hafir sett lögreglustjórann í erfiða stöðu?
„Nei, ég spurði bara um verklag um upplýsingagjöf og persónuverndarsjónarmið sem voru spurningar sem mér bárust,“ segir hún.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tekur undir orð dómsmálaráðherra. „Mér finnst ekkert óeðlilegt að dómsmálaráðherra ræði það við sína forstöðumenn þegar um er að ræða í raun og veru hennar stofnanir,“ segir Katrín.

„Að sjálfsögðu eigum við regluleg samskipti við forstöðumenn og erum oft í því hlutverki að svara fyrir þær stofnanir sem undir okkur heyra,“ segir hún. „Það er mjög eðlilegt að spurninga sé spurt í ljósi þess að þetta varðar stjórnmálamann sem er ráðherra í ríkisstjórn og formaður flokks en ég tel svör dómsmálaráðherra skýra þetta mál með fullnægjandi hætti.“