Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Óvenjumikið vetni við Svartsengi

26.02.2021 - 11:03
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Melissa Anne Pfeffer, sérfræðingur á sviði ösku- og efnadreifingar hjá Veðurstofunni sem hefur mælt gasútstreymi á Reykjanesskaga síðan skjálftahrinan hófst, segist hafa mælt óvenjuhátt gildi vetnis við virkjun HS-orku í Svartsengi í gær. Hún segir ómögulegt að segja til um hvað þetta þýðir.

HS-orka ætlar að kanna sínar mælingar og Melissa Anne mælir aftur í byrjun næstu viku til að eiga samanburðinn. Hún treystir sér ekki til að spá hvað þetta þýðir fyrr en eftir það. 

Engar marktækar breytingar var að sjá á gasútstreymi á Reykjanesskaga fyrsta sólarhringinn eftir stóra skjálftann á miðvikudaginn. Það kom sérfræðingum Veðurstofunnar á óvart, venjulega mælist meira af brennisteinsgufum eftir svo stóra skjálfta.

Hefðbundin eftirskjálftavirkni

Tveir skjálftar, um þrír að stærð, hafa mælst frá miðnætti á svipuðum slóðum, annar fannst á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesskaga um tuttugu mínútur fyrir níu, 3,2 að stærð. Upptök hans voru tvo kílómetra austur af Fagradalsfjalli. Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofunni, segir að skjálftarnir séu dæmi um hefðbundna eftirskjálftavirkni. Engin merki séu um að hrinan sé að taka sig upp að nýju. Frá því að hrinan hófst hafa hátt í fimm þúsund skjálftar mælst á Reykjanesskaga.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV