Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nefnd skoðar samskipti lögreglu við fjölmiðla

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Nefnd sem hefur eftirlit með störfum lögreglu kannar samskipti lögreglu við fjölmiðla eftir teiti í Ásmundarsal í miðbæ Reykjavíkur á Þorláksmessu.

Þetta kemur fram á mbl.is. Þar segir að einnig standi til að kanna hvort samræmi sé milli þess sem komi fram á upptöku og þess sem skrifað sé í skýrslu lögreglu.

Snemma morguns á aðfangadag kom fram í tölvupósti Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til fjölmiðla að meðal gesta í Ásmundarsal kvöldið áður hafi verið „einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands“. Þegar leið á morguninn kom í ljós að gesturinn var Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. Lögregla vísaði fólki úr samkvæminu því að sóttvarnareglur voru brotnar þar. Gestirnir voru 40 til 50 talsins.

Haft er eftir Skúla Þór Gunnsteinssyni, formanni nefndarinnar, á mbl.is að málið sé tekið upp að framkvæði nefndarinnar. Einnig hafi borist kvörtun frá eiganda Ásmundarsalar vegna starfshátta í málinu.

Fram kom í frétt fréttastofu 28. desember að Persónuvernd telji ekki tilefni til að aðhafast vegna þeirra upplýsinga sem lögregla sendi fjölmiðlum. Í fréttinni var haft eftir Vigdísi Evu Líndal, staðgengli forstjóra Persónuverndar, að almennt njóti opinberar persónur minni friðhelgi en aðrar. Á stað sem teljist opinber og opinn almenningi gildi vægari reglur um slíkar persónur. Þá hafi lögreglan ákveðnar upplýsingarskyldur gagnvart almenningi þannig að allskonar sjónarmið geta blandast saman.