Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Næst mesti samdráttur sögunnar á Íslandi

26.02.2021 - 15:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hagkerfið á Íslandi dróst saman um 6,6 prósent á síðasta ári og er það næst mesti samdráttur frá seinna stríði. Árið 2009 mældist samdrátturinn meiri eða 7,7 prósent. Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Í Hagsjánni segir að samdrátturinn sé minni en búist hafi verið við þar á bæ. Í október gerði hagfræðideildin ráð fyrir 8,5 prósenta samdrætti. Einkaneysla og kaup á íbúðum urðu mun meiri en spáð hafði verið. Fólk komst síður til útlanda vegna COVID-faraldursins og því var neyslan í mæli innanlands sem hefur stutt við fyrirtæki sem mörg fundu fyrir verulegum tekjusamdrætti vegna mikillar fækkunar ferðamenna, segir í Hagsjánni.

Áhrif COVID-faraldursins eru þó meiri en tölurnar segja til um því að útlit var fyrir að landsframleiðsla myndi aukast um 1 til 3 prósent á síðasta ári. Í Hagsjánni segir að með tilliti til þessa megi áætla að heildaráhrif faraldursins á landsframleiðslu séu neikvæð um á bilinu 250 til 300 milljarða króna. 

Útflutningur á síðasta ári dróst saman um 30,5 prósent og er það mesti samdráttur í útflutningi sem mældur hefur verið hér á landi. Mestur var hann áður árið 1949, um 13 prósent og árið 1967 þegar hann var 12,7 prósent. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir