Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Með stærstu jarðskjálftahrinum á Reykjanesskaga

Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur
Fimm skjálftar yfir fjórum að stærð hafa mælst norður af Fagradalsfjalli í dag. Hættustig er enn í gildi.  Jarðeðlisfræðiprófessor segir hrinuna vera með þeim stærstu sem hafa sést á Reykjanesskaga.  Skjálftavirkni sem ætti að verða á 6 til 10 árum hafi orðið á einu ári.

Jarðskjálftahrinunni á Reykjanesskaga virðist hvergi nærri lokið. Frá því á miðvikudag hafa 39 skjálftar mælst stærri en þrír og um 1750 skjálftar alls sei. Um hádegisbil í dag mældist skjálfti af stærðinni 4,4 og annar jafnstór laust fyrir klukkan fimm. Þá var viðtal fréttastofu við Pál Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði, um það bil að hefjast.

„Þessi var hressandi. Já svolítið. Þarna kemur annar.Það nötrar allt og skelfur.“ sagði Páll rétt áður en viðtalið hófst.

„Þetta er með stærstu hrinum sem við höfum séð á svæðinu. Þetta er partur af virku tímabili. Hún gerist inni á tímabili þar sem mikið er um að vera alveg núna í 14 mánuði, svo hér hefur hver atburðurinn rekið annan síðan í desember 2019,“ segir Páll.

Hann segir að vísindamenn læri nýja hluti á hverjum degi. Síðustu mánuðir hafi verið viðburðaríkir á Reykjanesskaga.

„Þetta hefur nú verið einkenni á Reykjanesskaganum eins lengi og við vitum aftur í tímann að jarðskjálftavirknin hún kemur í svona hrinum sem standa þá í nokkur ár. Það sem er sérstakt við þetta virknitímabil sem við erum núna í er hvað það hefur mikið gerst á tiltölulega stuttum tíma. Þannig að við erum búin að fá núna skjálfta sem jafngilda því sem áður gerðist á svona 6-10 árum jafnvel en þetta hefur gerst allt á rúmlega einu ári núna,“ segir Páll.

Veðurstofan birti færslu um klukkan hálf 6 þar sem segir að „í dag hafa 21 skjálfti mælst af stærð 3 til 4,4 norðanvert Fagradalsfjall. Á milli klukkan 11:59 og 14:00 mældust 14 jarðskjálftar þeirra og nú laust fyrir klukkan fimm mældust tveir, annar 4,4 að stærð. Þessir skjálftar hafa allir fundist á höfuðborgarsvæðinu og þeir stærstu einnig á Suðurlandi, á Akranesi og í Borgarnesi. Þessi virkni er með upptök í nágrenni við stærsta skjálfta hrinunnar sem varð kl. 10:05 að morgni 24. febrúar sl. og mældist 5,7 að stærð,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Starfsmenn Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands fylgjast grannt með hreyfingum jarðskorpunar á flekaskilunum. Í morgun fengu starfsmenn stofnunarinnar nýjar upplýsingar úr GPS mælum þar sem hægt er að sjá hvernig hreyfing jarðskorpunar dreifist yfir allt svæðið. Nánar verður greint frá þeim mælingum í sjónvarpsfréttum klukkan 19. 

Á vef Veðurstofunnar segir um þær mælingar: „Gervitunglaúrvinnsla staðfestir að færslur hafa mælst á svæðinu milli Svartsengis og Krýsuvíkur en þær nema nokkrum sentímetrum. Flekaskil ganga þvert í gegnum Reykjanesskagann og eru færslurnar sem mælast með gervitunglum til marks um landrekshreyfingar þar sem Evrasíuflekinn færist í austlæga átt og Ameríkuflekinn til vesturs. Engin gögn benda til að eldgos sé yfirvofandi,“ segir á vef Veðurstofunnar.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands - RÚV