Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Land færðist um allt að sex sentimetra í skjálftunum

Mynd: RÚV - Jarðvísindastofnun - Ve / RÚV
GPS-mælingar styðja það sem fram kom á gervihnattamyndunum um færslu jarðskorpunnar í skjálftunum á Reykjanesskaga. Ummerki sjást líka með berum augum við Krýsuvíkurbjarg.

Lengsta stökkið í Krýsuvík

Í stóra jarðskjálftanum á miðvikudaginn færðist jarðskorpan um nokkra sentimetra sums staðar samkvæmt GPS-mælistöðvum á svæðinu. Á þessu korti Halldórs Geirssonar jarðeðlisfræðings á Jarðvísindastofnun sést staðsetning stóra skjálftans 24. febrúar og efst í horninu ör sem er einn sentimetri að lengd. Frá 23. febrúar þar til eftir skjálftann færðust mælistöðvarnar í Eldvörpum og Skipastígshrauni um hálfan sentimetra. Mælistöðvarnar við Þorbjörn og Grindavíkur færðust meira og sú síðari um tæpa tvo sentimetra í norðnorðaustur. Stöðin á Svartsengi tók dágott stökk í norðvestur um nærri þrjá sentimetra. Lengst er þó hreyfingin í Krýsuvík. Því þar færðist stöðin um meira en þrjá sentimetra í suðaustur. Þessar stöðvar hafa haldið áfram að færast og Krýsuvíkurstöðin líklega um samtals sex sentimetra síðan á þriðjudaginn. 

Stórt sár í Krýsuvíkurbjargi eftir skjálftana

Við Krýsuvíkurberg hefur mikið gengið á undanfarið. Það var þrútið loft og þungur sjór við Krýsuvíkubjarg í dag þegar Vilhjálmur Þór Guðmundsson fréttatökumaður tók myndir með hjálp dróna. Rauða eða brúnleita sárið í berginu er frá því 26. október í fyrra eftir skjálfta upp á 5,6. Síðan flýgur dróninn vestur með bjarginu. Og þarna er enn stærra sár í berginu og það féll í skjálftanum á miðvikudaginn og vænir hnullungar sem þar hafa hlaðist upp. 

Þetta er ekki alveg búið segir bæjarstjórinn

Bæjarstjórinn í Grindavík sat á fjölmennum fjarfundi með Almannavörnum í hádeginu. 

„Menn voru þarna í beinni útsendingu og hver af öðrum sagði, heyrðu finniði kippinn og finniði skjálftann og við fundum vel fyrir honum hérna í Grindavík,“ segir Fannar Jónasson bæjarstjóri.

Hann segir að af tvennu illu sé betra að fá skjálfta á daginn en á nóttunni en Grindvíkingar séu tiltölulega rólegir. 

„Þetta er aftur komið í gang, svona hrina, svolítið samfelld, sem hafði nú hægt á þarna í gær og okkur leið svolítið betur með þetta en þetta er ekki alveg búið.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jarðvísindastofnun - Ve - RÚV
Gervihnattamynd sem sýnir færslu flekaskila. Rauði liturinn er færsla um það bil í vestur en sá blái í austur.