Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ísland er ennþá eina græna landið í Evrópu

Kort Sóttvarnastofnunar Evrópu
 Mynd: https://www.ecdc.europa.eu/ - Kort
Ísland er eina landið í Evrópu sem er allt merkt grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu sem sýnir útbreiðslu kórónuveirufaraldursins. Græni liturinn merkir þau lönd þar sem tíðni smita er lægst og norðurhluti Noregs er eina svæðið, fyrir utan Ísland, sem er merkt grænt.

Sóttvarnastofnunin birti nýtt kort á vefsíðu sinni í gær, en það sýnir stöðu faraldursins í löndum Evrópu með því að merkja þau græn, appelsínugul, rauð eða dimmrauð. Land er merkt dimmrautt ef nýgengið, sá fjöldi smita sem greinst hefur undanfarna 14 daga á hverja 100.000 íbúa, er 500 eða hærra og ef hlutfall jákvæðra sýna er 4% eða hærra. Svæði í Úkraínu, á Spáni og Ítalíu eru í þessum lit.

Meirihluti landanna er rauður, en það þýðir annaðhvort að nýgengið er 150 eða hærra, eða að nýgengið er 50 eða hærra og hlutfall jákvæðra sýna 4% eða hærra.

Lönd fá appelsínugula litinn annaðhvort ef nýgengið er lægra en 50 og hlutfall jákvæðra sýna 4% eða hærra eða ef nýgengið er á milli 25 og 150 og hlutfall jákvæðra sýna er lægra en 4%. Meirihluti Finnlands er appelsínugulur og einnig suðurhluti Noregs.

Land er skilgreint grænt ef nýgengið er lægra en 25 og hlutfall jákvæðra sýna lægra en 4%. Ísland var appelsínugult þangað til í janúar og þar áður var það skilgreint sem rautt ríki.

Land er skilgreint grátt ef ekki liggja nægilegar upplýsingar fyrir um stöðu faraldursins þar eða ef tekin eru færri en 300 sýni á hverja 100.000 íbúa.