Harry segir skárra að horfa á Crown en að lesa fréttir

epa09013012 (FILE) - Britain's Prince Harry, Duke of Sussex (R) and his wife Meghan, Duchess of Sussex visit Canada House in London, Britain, 07 January 2020 (reissued 14 February 2021). The Duke and Duchess of Sussex are expecting their second child, a spokesperson for the couple has confirmed on 14 February 2021.  EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA
 Mynd: Facundo Arrizabalaga - EPA-EFE

Harry segir skárra að horfa á Crown en að lesa fréttir

26.02.2021 - 11:31

Höfundar

Harry prins segir skárra að horfa á sjónvarpsþættina The Crown en að lesa fréttir götublaðanna um sig eða fjölskyldu sína. „Þættirnir eru augljóslega skáldskapur þótt þeir byggi á raunverulegum atburðum. Slúðursögur götublaðanna eru settar fram sem staðreynd og það er eitthvað sem angrar mig.“

Harry var óvæntur gestur í spjallþætti James Corden, The Late Show, í gærkvöld. Viðtalið virðist hafa verið tekið upp áður en prinsinn og Meghan hertogaynja, eiginkona hans, tilkynntu að þau ættu von á sínu öðru barni.

Harry dró ekkert undan í gagnrýni sinni á bresku pressuna sem hann hefur áður sakað um óvægna umfjöllun, ekki síst í aðdraganda brúðkaups hans og Meghan.  Hann sagði fjölmiðlana hafa búið til eitrað umhverfi „og þeir voru að eyðileggja andlega heilsu mína.“ 

Harry sagði hjónin hafa horft á sjónvarpsþættina The Crown sem fjalla um valdatíð ömmu hans, Elísabetu Bretadrottningu. Og draga ekki alltaf upp fallega mynd um hvað gerist á bakvið tjöldin. Fjórða þáttaröðin þótti sérstaklega óvægin þar sem stormasamt hjónaband foreldra Harry var í aðalhlutverki. 

Hann sagði þættina þó skárri en fréttir slúðurblaðanna um fjölskyldu hans. „Þeir eru augljóslega skáldskapur þótt þeir byggi á raunverulegum atburðum. Þeir gefa smá hugmynd um hvað því fylgir mikið álag þegar skyldur þínar eru alltaf mikilvægari en fjölskylda þín.“ Fréttir götublaðanna væru settar fram sem staðreynd „og það er eitthvað sem angrar mig.“

Harry hafnaði því í viðtalinu að hafa yfirgefið konungsfjölskylduna heldur hafi hann gert það sem hver eiginmaður og faðir hefði gert. „Ég þurfti að koma fjölskyldu minni burt en ég sneri ekki baki við skyldum mínum.“

Harry og Meghan eru væntanlegir gestir bandarísku sjónvarpskonunnar Opruh Winfrey í næstu viku. Þar mun Winfrey ræða fyrst við Markle um þá pressu sem fylgir því að giftast inn í bresku konungsfjölskylduna og Harry bætist síðar í hópinn.