Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hádegisfréttir: Mikil aflögun í skjálftahrinunni

26.02.2021 - 12:20
Snarpur skjálfti varð nú í hádeginu skammt norður af Fagradalsfjalli. Hann var 4,5 að stærð, samkvæmt fyrstu upplýsingum frá Veðurstofunni. Mikil aflögun hefur orðið á svæðinu milli Grindavíkur og Kleifarvatns í skjálftahrinunni. Þetta sýna gervihnattamyndir sem vísindamenn skoðuðu í morgun. Engin merki voru þó um landris eða kvikuinnskot nálægt yfirborði.

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands, segir að þau tjón, sem stofnuninni hefur verið tilkynnt um eftir stóra skjálftann, séu líklega öll undir eigin áhættu, sem er 400 þúsund krónur. Aðeins eitt tjón var yfir eigin áhættu eftir stóra skjálftann í október. Hann var af svipaðri stærð og þeir stóru sem riðu yfir nú í vikunni. Veðurstofan býst við stærri skjálfta, yfir sex, á Reykjanesskaga í framhaldi af þessari skjálftahrinu. 

Að mati lögreglu starfa fimmtán skipulagðir glæpahópar hér á landi. Í þeim er fólk af mörgu þjóðerni. Þeir starfa bæði innanlands og utan og margir þeirra stunda löglegan rekstur samhliða brotastarfsemi. Þetta kemur fram í aðsendri grein Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra í Morgunblaðinu í dag. Þar boðar ráðherra frekari aðgerðir til að bregðast við þessu, meðal annars sérstakt 350 milljóna króna framlag í löggæslusjóð til að efla lögregluna í aðgerðum gegn skipulagðri brotastarfsemi.

 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV