Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Góð útkoma úr tilraunaverkefni um heimaslátrun

26.02.2021 - 14:43
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Tilraunaverkefni um heimaslátrun sauðfjár í síðustu sláturtíð er talið hafa tekist vel. Markmiðið með verkefninu var að finna leiðir til að auðvelda sauðfjárbændum heimaslátrun og markaðssetja eigið lambakjöt.

25 býli í öllum landshlutum tóku þátt í þessu verkefni. Á 11 bæjum var kjöt heilbrigðisskoðað á staðnum af dýralækni, en á 14 bæjum var heilbrigðisskoðað rafrænt í beinni útsendingu. Í skýrslu sem nú er komin út kemur fram að í verkefninu hafi átt að kanna áhuga bænda á því að fara þessa leið, sjá hvað opinbert eftirlit með slátrun væri mikið og tímafrekt og hvaða möguleikar fælust í rafrænni heilbrigðisskoðun.

Útkoman góð í heildina

Hólmfríður Sveinsdóttir doktor í lífvísindum er höfundur skýrslunnar. Hún segir að í heildina sé úkoman góð. Vel hafi gengið fyrir dýralækna að fara heim á bæi og skoða féð fyrir slátrum og heilbrigðisskoða kjötið. „Bæði tók þetta ekki langan tíma og þetta var frekar einfalt í skipulagningu,“ segir hún. Þá hafi gæðamælingar á kjötinu komið vel út þar sem bændur tóku sjálfir sýni og komu þeim á rannsóknastofu innan tiltekins tíma.

Þarf að bæta tækni í stafrænum samskiptum

Helstu hnökrarnir segir Hólmfríður að hafi komið fram í rafrænum samskiptum. Þau hafi ekki verið nógu góð. „En þetta eru þættir sem klárlega má laga. Við vitun að starfrænni tækni fleygir fram þessa dagana. Þannig að þarna er alveg klárlega tækifæri til þess að gera betur.“

Verkefnið sýni að þarna eru miklir möguleikar fyrir bændur  

Í næsta mánuði kynnir landbúnaðarráðherra átak sem á að auka möguleika bænda á að framleiða og selja afurðir beint frá býli og stuðla að frekari fullvinnslu og vöruþróun. Hólmfríður telur að útkoman úr þessu tilraunaverkefni sýni að þar séu miklir möguleikar fyrir bændur. „Ef aðstæður heima á bæjunum er þannig og ef þeir eru með viðurkennd rými, er ekkert því til fyrirstöðu að bændur fari í heimaslátrun. Og síðan bara kallar markaðurinn eftir þessu.“