Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fimm til að bregðast við eldi og jarðskjálftum

Mynd með færslu
 Mynd: Man On Man - 1983

Fimm til að bregðast við eldi og jarðskjálftum

26.02.2021 - 13:00

Höfundar

Það er ekki beinlínis sungið um jarðhræringar í Fimmunni að þessu sinni enda voru Carol King og James Taylor langt komin með að afgreiða það strax árið 1971. Það sem er aftur á móti í boði er huggulegheit frá sænsk-argentínska söngvaskáldinu José Gabriel González og kanadísku Weather Station, hressandi hómóerótík frá Man On Man, þungarokksrappbræðing frá Paris Texas og töffarastæla frá Night Beats.

Jose Gonzalez - El Invento

Sænsk-argentínska söngvaskáldið José Gabriel González eða Þossi Gabríel Gunnólfsson eins og hann myndi heita ef fjölskylda hans hefði ákveðið að sækja um hæli á Íslandi árið 1976, hefur sent frá sér sitt fyrsta lag í sjö ár. Það skýrist að einhverju leyti af barneignum og fæðingarorlofi, en lagið er það fyrsta sem Þossi sendir frá eftir sér á spænsku og var frumflutt við afhendingu Nóbelsverðlaunanna í fyrra.


Weather Station - Tried To Tell You

Kandadíska tónlistarkonan Tamara Lindeman stofnaði bandið Weather Station fyrir fimmtán árum og gaf út sína fimmtu plötu Ignorance í byrjun febrúar. Lagið og myndbandið Tried To Tell You er búið að vera kraumandi undir síðan í nóvember og virðist vera að koma bandinu fyrir alvöru á kort tónlistarnörda.


Man On Man - 1983

Dúettinn Man On Man er skipaður Roddy Bottum sem er kannski þekktastur úr Faith No More og Imperial Teen og kærasta hans Joey Holman. Parið hefur heldur betur fundið ástina á tímum pestarinnar og fagna því með að senda frá sér plötu í byrjun maí. Tónlistina skilgreina þeir sem einhvers konar blöndu af indí-rokki, diskói, pönkaralátum, tyggjókúlupoppi og tittlingagreddu.


Paris Texas - Heavy Metal

Það er ekki mikið vitað um dúettinn Paris Texas annað en að þeir koma frá Los Angeles og voru að senda frá sér Heavy Metal sem er þeirra fyrsta lag. Gaurar og gellur á helstu tónlistarmiðlum virðast vera að sperra eyrun fyrir þeim Louie Pastel og Felix sem blanda saman þungarokki og rappi eins og það sé búið að gefa leyfi fyrir því aftur.


Night Beats - That's All You Got

Lagið That’s All You Got kom út í desember og hefur mallað í rólegheitunum síðan enda nostalgískur töffaraslagari fyrir lengra komna. Lagið er vel heppnað samtarf rokkarans Danny Lee Blackwell sem kallar sig Night Beats og Robert Levon Been úr Black Rebel Motorcycle Club.


Fimman á Spottanum