Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Fær ekki að snúa til Bretlands

26.02.2021 - 23:57
Mynd með færslu
 Mynd: EBU
Hæstiréttur í Bretlandi komst að þeirri niðurstöðu í dag að Shamima Begum, sem á táningsaldri fór til Sýrlands og gekk til liðs við Íslamska ríkið, fái ekki að snúa aftur heim til Bretlands.

Guardian hefur eftir forseta dómstólsins, Lord Reed, að dómarar hafi verið sammála í niðurstöðu sinni. Begum er í dag 21 árs gömul en var aðeins 15 ára þegar hún hélt til Sýrlands. Hún fæddist í Bretlandi og ólst þar upp, en engu að síður var hún svipt breskum ríkisborgararétti árið 2019 af þáverandi innanríkisráðherra, Sajid Javid. Það var stuttu eftir að blaðamaður fann hana í al-Roj fangabúðunum. Begum hefur eignast þrjú börn í Sýrlandi. Þau eru öll látin. 

Samkvæmt breskum lögum er ekki heimilt að svipta fólk ríkisborgararétti ef það verður til þess að það er án ríkisfangs. Javid hélt því fram að hún gæti sótt um ríkisborgararétt í Bangladess, þar sem foreldrar hennar fæddust. 

Priti Patel, sem nú gegnir embætti innanríkisráðherra Bretlands, hefur verið þeirrar skoðunar að Begum eigi ekki að fá ríkisborgararéttinn aftur. Guardian hefur eftir henni að ríkisstjórnin geri sitt ítrasta til að verja öryggi borgaranna. Ekki eru allir á sama máli. Maya Foa, framkvæmdastjóri mannréttindasamtakanna Reprieve, segir að breska ríkið hafi meinað henni að snúa til baka til að forðast að taka ábyrgð. „Líkt og mörg Evrópuríki, þá getur Bretland vel tekið við breskum föngum frá Sýrlandi, mörg þeirra fóru þangað sem unglingar í gegnum mansal eða voru nörruð til þess á netinu,“ hefur Guardian eftir Foa, sem telur að ríkisstjórnin ætti að leyfa breskum fjölskyldum að snúa til baka svo börn fái þann stuðning sem þau þurfi. Hægt yrði að rétta yfir fullorðnum sem hafi brotið af sér. 

Talið er að um 900 Bretar hafi gengið til liðs við Íslamska ríkið í Sýrlandi og Írak. 20 prósent þeirra hafa fallið og 40 prósent snúið til baka til Bretlands. Hinna er ýmist saknað eða haldið í fangabúðum Kúrda. Mörg þeirra hafa misst breskan ríkisborgararétt sinn.