Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Danir vilja nýta sér vandræðin með AstraZeneca

epa08283060 Danish Prime Minister Mette Frederiksen holds a press briefing on the novel coronavirus Covid-19 situation, in Copenhagen, Denmark, 10 March 2020. Denmark announced on the day that it has registered 156 cases of Covid-19 infections.  EPA-EFE/LISELOTTE SABROE  DENMARK OUT
 Mynd: EPA - RÚV
Dönsk yfirvöld vilja kaupa þá skammta sem önnur lönd í Evrópusambandinu nota ekki. Bæði Þjóðverjar og Frakkar hafa lent í vandræðum með bóluefni AstraZeneca þar sem fjöldi fólks hefur neitað að láta bólusetja sig með bóluefninu.

Þetta kom fram á blaðamannafundi Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, í dag. „Ef önnur lönd eru með bóluefni sem þau geta ekki notað viljum við fá þá skammta. Við viljum bólusetja eins marga og við getum og erum reiðubúin að sækja þetta bóluefni og borga uppsett verð,“ sagði Frederiksen.

Þrjú bóluefni hafa fengið skilyrt markaðsleyfi í Evrópu; Pfizer/BioNTech, Moderna og AstraZeneca. Nokkur styr hefur staðið um það síðastnefnda, flest Evrópulönd gefa það ekki til íbúa eldri en 65 ára og þá hefur framleiðandinn sjálfur staðið í hörðum deilum við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þar sem hann hefur ekki getað staðið við afhendingaráætlun sína.

Yfirvöld í Þýskalandi og Frakklandi hafa lent í vandræðum þar sem fjöldi fólks hefur neitað að láta bólusetja sig með bóluefninu. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, reyndi að höggva á hnútinn í gær með yfirlýsingu um að hann myndi þiggja bóluefnið.  Dæmi eru um að starfsmenn sjúkrahúsa í Frakklandi hafi farið þess á leit að þeir verði eingöngu bólusettir með bóluefni Pfizer/BioNTech eða Moderna. 

Þjóðverjar hafa aðeins nýtt 17 prósent þeirra skammta af bóluefni AstraZeneca sem þeir hafa fengið.  Borgarstjóri Berlínar hefur hótað að setja þá aftast í forgangsröðina sem þiggja ekki bóluefnið. Heilbrigðisráðherra landsins sagði fólk eiga að líta á það sem forréttindi að vera bólusett gegn COVID-19 með jafn öruggu og virku bóluefni og AstraZeneca. 

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, greindi frá því á upplýsingafundi í gær að fólk hér hefði afþakkað bólusetningu með AstraZeneca-bóluefninu. Þar væri helst nefnt aukaverkanir eftir fyrstu sprautu og að bóluefnið veitti minni vörn en hin tvö. 

Þórólfur tók fram að munurinn á virkni bóluefnanna væri ekki mikill „og því engin ástæða að neita einu bóluefni umfram önnur.“ Undir það tók Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræði við Háskóla Íslands, á Facebook-síðu sinni. „[A]ð gefa tvo skammta af AstraZeneca bóluefni með 3 mánaða millibili er fínt, þ.e. góð vernd fram að seinni skammti, og vernd eftir seinni skammt er best hjá þeim sem fá skammtana með 12 vikna millibili eða lengur.“