Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Borgarstjóri krefst rannsóknar á ríkisstjóra

26.02.2021 - 07:02
Photos from the opening of the new Delta Air Lines terminal in LaGuardia Airport in Queens, NY, on Tuesday, Oct. 29, 2019. (Chris Rank for Rank Studios)
 Mynd: Delta News Hub - Flickr
Bill de Blasio, borgarstjóri New York, bættist í hóp þeirra sem krefjast ítarlegrar rannsóknar á ásökunum í garð ríkisstjórans Andrew Cuomo um kynferðislega áreitni. Lindsey Boylan, fyrrverandi aðstoðarkona Cuomos, sakar hann um fjölda brota á meðan hún vann fyrir hann frá árinu 2015 til 2018.

Boylan birti bloggfærslu á miðvikudag þar sem hún segir Cuomo hafa kysst hana á munninn án samþykkis. Þá segir hún hann hafa lagt til að þau spiluðu fatapóker í flugvél, og hann hafi strokið henni um mjóbakið, hendur og fætur. 
Yfirlýsing var send út frá skrifstofu Cuomo þar sem ásakanir Boylan um ósæmilega hegðun hans séu einfaldlega rangar. Cuomo sagði einnig þegar Boylan birti fyrst ásakanir á hendur honum á Twitter í desember að hún segði ósatt. 

Borgarstjórinn de Blasio segir hins vegar nóg komið og vill fá ítarlega og óháða rannsókn á ríkisstjóranum. „Þetta eru mjög alvarlegar ásakanir. Við verðum að komast að sannleikanum," sagði de Blasio við blaðamenn vestanhafs í gær. 

Þarf að svara fyrir fleira

Sótt er á Cuomo úr mörgum áttum þessa dagana. Auk ásakana um kynferðislega áreitni þarf hann einnig að svara fyrir það hvernig tekið var á kórónuveirufaraldrinum á hjúkrunarheimilum ríkisins. Alríkissaksóknarar í New York rannsaka nú hvort ríkisstjórn Cuomos hafi vísvitandi falið gögn yfir fjölda látinna á hjúkrunarheimilum af völdum COVID-19. Eftir að stjórn hans var sökuð um að vanmeta dánartíðni á hjúkrunarheimilum vegna sjúkdómsins um nokkur þúsund var greint frá því að 15 þúsund hafi látist vegna COVID-19, en ekki 8.500 eins og sagt var áður.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV