Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Bólusetning með bóluefni Janssen hefst í byrjun apríl

epa09037995 European Commission President Ursula von der Leyen speaks during a news conference following a video conference on security and defence and on the EU's Southern Neighborhood with European leaders and NATO Secretary General Stoltenberg in Brussels, Belgium, 26 February 2021.  EPA-EFE/JOHANNA GERON / POOL
 Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL
Bóluefni belgíska lyfjafyrirtækisins Janssen fær skilyrt markaðsleyfi hjá Lyfjastofnun Evrópu þann 11. mars og bólusetning með bóluefninu hefst líklega í byrjun apríl. Þetta kemur fram á vef Bloomberg. Glæra sem forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins kynnti á leiðtogafundi í gær sýnir fram á mikla aukningu bóluefna til þeirra landa sem eiga aðild að bóluefnakaupum sambandsins. Ísland er eitt þeirra.

Bloomberg vitnar til ónefnds heimildarmanns sem segir það nánast öruggt að bóluefni Janssen fái skilyrt markaðsleyfi um miðjan næsta mánuð og að hægt verði að nota bóluefnið í byrjun apríl.   

Þetta yrði þá fjórða bóluefnið sem fengið skilyrt markaðsleyfi hjá Evrópusambandinu. Hin þrjú eru AstraZeneca, Pfizer/BioNTech og Moderna.  Janssen sker sig úr þessum hópi þar sem aðeins þarf einn skammt af bóluefninu.

Ísland er hluti af bóluefnakaupum Evrópusambandsins. Samkvæmt vef Stjórnarráðsins hafa íslensk stjórnvöld keypt skammta fyrir 235 þúsund Íslendinga af bóluefni Janssen.

Nokkur togstreita hefur ríkt um AstraZeneca-bóluefnið í löndum Evrópusambandsins sem hefur verið notað með góðum árangri í Bretlandi. Þjóðverjum og Frökkum hefur gengið illa að sannfæra fólk um að þiggja bólusetningu með bóluefninu og ráðamenn hafa síðustu daga reynt að koma því til varnar.

Í dag óskaði Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, eftir að kaupa þá skammta sem önnur ríki Evrópusambandsins notuðu ekki og duldist engum að hún var þar að vitna til vandræðanna með AstraZeneca.

Í frétt Bloomberg kemur jafnframt fram að margir leiðtogar hafi efast um að markmið Evrópusambandsins náist; að allir fullorðnir íbúar verði komnir með bóluefni fyrir haustið. 

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar, kynnti glæru sem sýndi mikla aukningu af bóluefnaskömmtum á næstu mánuðum til þeirra landa sem eiga aðild að bóluefnakaupum sambandsins .

Þá var lögð fram greining frá breska fyrirtækinu Airfinity þar sem fram kom að bóluefnabirgðir Evrópusambandsins dugi til að bólusetja 75 prósent fullorðinna fyrir lok ágúst.

Fleiri bóluefni eru síðan á leiðinni. Tvö eru í áfangamati hjá Lyfjastofnun Evrópu; CureVac og Novavax. Íslensk stjórnvöld hafa tryggt sér skammta fyrir 90 þúsund manns af fyrrnefnda bóluefninu og Evrópusambandið er að klára samninga við Novavax.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV